139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Svo virðist vera að þinginu sé stjórnað af sama harðræði og Stjórnarráðinu, af þrjóskunni einni saman. Það er undarlegt að upplifa það hér. Þessi dagur er brátt á enda runninn og ekki er hægt að draga það upp úr hæstv. forseta hvað fundurinn eigi að standa lengi. Ég skil ekki þess háttar vinnubrögð. Hér er verið að eyða tíma þingsins í óþarfa, má segja, vegna þess að hæstv. forseti neitar að tjá sig.

Þess vegna fer ég fram á að upplýst verði um það ekki seinna en strax til að þingmenn geti gert ráðstafanir heima hjá sér. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal þreytist ekki á að minna hæstv. forseta á á þetta að vera fjölskylduvænn vinnustaður samkvæmt stefnu forseta þingsins sem hún setti þegar hún tók við forsetastólnum eftir síðustu kosningar. Fáum við svör núna, frú forseti, eða þurfum við að halda þessu mikið áfram?