139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var yfirgripsmikil ræða hjá hv. þingmanni. Mig langar að koma inn á eitt atriði sem hann sagði a.m.k. tvisvar eða þrisvar sinnum. Hann sagði: Stjórnsýslan brást. Hvað er stjórnsýslan í huga hv. þingmanns? Mér finnst ég heyra þetta of oft úr ræðustól Alþingis og spyr: Voru ráðherrar ekki hluti stjórnsýslunnar? Eru ráðherrar ekki yfirmenn stjórnsýslunnar? Eru stjórnmálamenn ekki þeir sem eiga að hafa eftirlit með stjórnsýslunni? Er sanngjarnt og rétt að standa í þessum stól æ ofan í æ og segja: Stjórnsýslan brást? Voru það ekki stjórnmálamennirnir sem brugðust?