139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann möguleika sem mér gefst til að veita andsvar við þessari ræðu. Mig langar að minnast á tvö atriði helst.

Í fyrsta lagi vil ég viðra þá skoðun mína að ég tel það skynsamlegt að forsætisráðherra sé gefin ríkari heimild en hann hefur nú til að skipa ráðuneyti eftir því sem framkvæmdarvaldið telur. Ég tel því ekki að Alþingi sé með einhverjum hætti að gefa frá sér völd. Ég held á hinn bóginn að við séum að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu ef ráðherra, forsætisráðherra í þessu tilviki, getur sett sérstakan ráðherra yfir ákveðinn málaflokk í tiltekinn tíma, getur skipað ráðherra utan ráðuneytis, getur lagt áherslu á málefni barna næstu 18 mánuðina eða skipað ráðherra ferðamála, eins og hv. þingmaður minntist á, og með þeim hætti aukist sveigjanleiki innan framkvæmdarvaldsins. Með því að hafa skýrari skil þarna á milli mundi ég telja að staða þingsins yrði sterkari en ella. (Forseti hringir.)

Fyrirgefið, frú forseti, ég hélt að ég ætti tvær mínútur þannig að ég var rólegur í spurningu minni. Þetta var fyrri spurningin en ég kem aftur að nýju.

(Forseti (SF): Það er einungis ein mínúta þar sem fjórir höfðu beðið um að fá að veita andsvar.)