139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er grundvallaratriði. Nei, ég verð að segja og svara hv. þingmanni þannig: Þetta er ekki í anda þingmannanefndarinnar, síður en svo. Það að keyra þetta í gegn á þessum svokallaða septemberstubb lýsir í rauninni viðhorfi ríkisstjórnarinnar til þeirra verkefna sem blasa við. Áherslur ríkisstjórnarinnar eru að koma í gegn frumvarpi sem fer gegn þingmannanefndinni, fer í gegn rannsóknarnefndinni og í staðinn bíða verkefni sem tengjast málefnum heimilanna, fjárfestingum sem sumir hverjir vilja alls ekki ræða o.s.frv., o.s.frv.

Verkefni dagsins í dag eru að koma fólki til vinnu, skapa störf, skapa verðmæti fyrir heimilin, skapa verðmæti m.a. fyrir ríkiskassann til að allt geti farið af stað, halda áfram velferðarsamfélaginu o.s.frv. Þetta eru verkefnin sem bíða hjá ríkisstjórninni. Verkefnin sem þau vilja keyra í gegn fram yfir miðnætti eru breytingar á Stjórnarráðinu, að afhenda forsætisráðherra alræðisvald varðandi skipan framkvæmdarvaldsins.