139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt kjarni málsins að ekki sé alltaf verið með þennan hringlanda í kringum hverjar kosningar. Það er ekkert óeðlilegt að ný ríkisstjórn hverju sinni vilji koma með sínar áherslur, hugsanlega að sameina ráðuneyti eða gera þetta með öðrum hætti, en þá verðum við að taka þá umræðu í þinginu. Það sem verið er að gera með þessum breytingum er að öll slík umræða, hvaða ráðuneyti verða starfandi, hvernig þau starfa og eru starfrækt, mun bara fara fram á flokksskrifstofum. Er það heilbrigt? Ég segi nei, hún á að fara fram í þinginu. Við þingmenn eigum að fá að koma að því að ræða hvernig ríkisstjórnin er byggð upp, ég sé ekkert hættulegt við slíka umræðu. Miklu frekar eiga allir þingmenn, hvort heldur þeir eru almennir þingmenn eða ráðherrar í ríkisstjórn, að fagna slíkri umræðu, við eigum að vera óhrædd við að taka þá umræðu hvaða framtíðarsýn við sjáum fyrir ríkisstjórnina.