139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á fundi iðnaðarnefndar sem við héldum nýverið með eiginlega öllum aðilum þessa máls þarna suður frá kom fram að menn reikna með því, og það er lokadagsetning, að gerðardómur felli sinn dóm eigi síðar en í lok september. Aðrar upplýsingar höfum við ekki um það né hvað verður í þessum gerðardómi en ég á enga ósk heitari en þá að dómurinn verði skýr og afdráttarlaus og að þá ljúki þessari deilu milli aðila, orkusöluaðila og orkukaupanda, og að verkið sem þarna er talað um komist þá í gang.

Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að það verk sem þarna er hafið og er búið að eyða einum 25–30 milljörðum í er með öll tilskilin leyfi sem þarf fyrir slíka atvinnustarfsemi og slíka atvinnuuppbyggingu. Ég hef áður sagt það og skal segja það einu sinni enn að þetta er fljótvirkasta leiðin sem við höfum í dag til að minnka atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins í gang.

Þess má líka geta að það hefur komið fram á fundunum að verkefnið er svo gott sem fullfjármagnað. Þetta er svæðið sem býr við mikið atvinnuleysi eins og við höfum séð í fréttum nýlega. Það jákvæða er hins vegar að kísilverkefnið svokallaða sem þarna er verið að ræða um er að fara á fulla ferð, að mér skilst, og þar mun draga til tíðinda eigi síðar en 15. október. Það er mjög ánægjulegt, það mun skapa 200–300 störf á byggingartíma og fjölmörg störf til framtíðar.

Sömuleiðis eru mjög jákvæð skilaboð að koma núna, kannski loksins, um uppbyggingu netþjónabúsins á Keflavíkurflugvelli, að það sé líka að fara í gang. Út frá því sem við heyrðum líka í iðnaðarnefnd nýlega á fundum okkar með þeim aðilum getum við borið væntingar til þess að það verkefni fari líka í gang. Við skulum vona, virðulegi forseti, að þau atriði sem við höfum hér gert að umtalsefni séu öll að fara í gang. Þau munu hafa jákvæð skilaboð inn í atvinnulífið, (Forseti hringir.) minnka atvinnuleysið á svæðinu og auka hagvöxt um leið og það fyllir aðra bjartsýni til annarra verka, bæði á þessu svæði og annars staðar.