139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Mér fannst ekki sanngjarnt af hæstv. velferðarráðherra að gagnrýna fyrri ríkisstjórn þar sem hæstv. forsætisráðherra var einmitt fyrirrennari hans í embætti, Jóhanna Sigurðardóttir, en hún sat nefnilega í hrunstjórninni og nokkur ár þar á undan.

Það sem ég sakna mest og skil ekki af hverju hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert neitt í er að kanna stöðu heimilanna. Það liggja fyrir tvö frumvörp í hv. efnahags- og skattanefnd frá því í nóvember í fyrra og ekkert gert með þau, annað er meira að segja frá hæstv. ríkisstjórn. Menn tala hér stöðugt og vita ekki hvað þeir eru að gera og hvernig staðan er. Það finnst mér eiginlega verst.

Það sem mér finnst næstverst er allur þessi hægagangur. Þegar lögin voru sett um umboðsmann skuldara, sem ég vann ansi mikið í í hv. félagsmálanefnd, vildi ég hafa ferilinn einfaldan, ekki óska eftir skattframtölum sem liggja fyrir á netinu, ekki óska eftir þessum og hinum gögnunum og láta fólk hlaupa fram og til baka með miklum kostnaði til að afla gagna sem liggja fyrir. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með framkvæmdina á þessum sértæku aðgerðum til að leysa vanda heimilanna. Hún gengur of hægt.

Eins varð ég fyrir miklum vonbrigðum með hvað bankarnir hafa dregið lappirnar í því að gera upp við heimilin þó að það sé kannski kominn ákveðinn gangur í það núna, en það eru liðin þrjú ár frá hruni, frú forseti, og þessi ríkisstjórn hefur starfað í tvö og hálft ár. Þetta gengur allt, allt of hægt.