139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Maður fær ýmis nöfn í þessari umræðu. Ég hef verið kölluð yfirforseti og nú er ég friðardúfa. Ég verð nú að segja það að ég kann því nú bara ágætlega að vera kölluð friðardúfa og ég tel að ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson höfum reyndar í störfum okkar sem þingflokksformenn og í samvinnu við aðra þingflokksformenn sýnt það með verkum okkar að okkur hefur tekist að leysa ýmis erfið mál og leitt þau í jörð. Þrátt fyrir kerskni hv. þm. Róberts Marshalls leyfi ég mér að fullyrða að við gætum ekki orðið til meiri skaða fyrir lausn málsins en þær ógöngur sem það er í núna.

Það frumvarp sem við ræðum nú snýst um sjálfstæði Alþingis. Þess vegna vil ég biðja hæstv. forseta um að beita sér fyrir því að þingflokksformenn (Forseti hringir.) verði kallaðir saman þannig að við getum í það minnsta reynt að (Forseti hringir.) blaka friðardúfuvængjum okkar í átt til sáttar í þessu máli.