139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í upphafi ítreka ég sjónarmið sem hér hafa komið fram um að það væri heppilegra fyrir framgang mála á síðustu dögum þingsins að taka fyrir þau mál sem samkomulag er um eða sem með einhverjum hætti eru tengd einhverjum sérstökum dagsetningum, ræða þau og afgreiða, komast að niðurstöðu í þeim og geyma ágreiningsmál, jafnvel stór ágreiningsmál eins og það sem hér er á dagskrá, mál sem hvorki er samkomulagsmál né tengt nokkurri sérstakri dagsetningu. Það er alveg rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, stjórnarandstæðingar í þinginu telja nauðsynlegt að ræða þetta mál mikið. Það er reyndar ekki svo að þeir hafi eingöngu áhuga á að heyra eigin sjónarmið. Til dæmis er ég alveg sannfærður um að margir hv. þingmenn hefðu mjög gaman og jafnvel gott af því að heyra sjónarmið hv. þm. Helga Hjörvars í þessu máli en hann hefur, a.m.k. fram til þessa, reynt að þegja sig í gegnum þessa umræðu.