139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

staðsetning nýs öryggisfangelsis.

[10:47]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Nú er tekist á um staðsetningu á nýbyggingu öryggisfangelsis. Tillaga hæstv. innanríkisráðherra, um að byggja nýtt gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi á Hólmsheiði, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í þá umræðu þar sem ágæt sátt hefur lengi verið um að endurnýja gæsluvarðhaldsrými á höfuðborgarsvæðinu en byggja nýja öryggisálmu við Litla-Hraun. Á Litla-Hrauni hefur verið rekið öflugt öryggisfangelsi um áratugaskeið. Þessa sátt staðfesta fjárlög ársins 2011. Þar er til staðar 6. gr. heimild til stjórnvalda um að selja Kópavogsfangelsið og Hegningarhúsið og kaupa eða leigja eftir atvikum gæsluvarðhaldsrými í Reykjavík. Því hefur Alþingi aldrei tekið ákvörðun um að reisa annað öryggisfangelsi fyrir á 3. milljarð kr. innan sama félags- og atvinnusvæðis sem Litla-Hraun og Hólmsheiði eru svo sannarlega á, heldur hitt sem skýrt er kveðið á um og ég las upp áðan.

Þá má nefna að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem kom út í mars árið 2010, er metinn kostnaður við ýmsa kosti nýbygginga á fangelsisrýmum. Niðurstaðan er sú að kostnaður á hvern fanga á Litla-Hrauni, eftir stækkun um 44 rými, yrði 5,8 millj. kr. en í nýju fangelsi á Hólmsheiði, upp á 40 rými, 7,8 millj. kr. Nú hafa hins vegar borist fréttir af öðrum útreikningum sem draga fram aðrar niðurstöður, og þá sérstaklega út frá ferðakostnaði sem er hins vegar að mestu bundinn við gæsluvarðhaldsfanga og næðist hann því sjálfkrafa niður með því að endurnýja gæsluvarðhaldsrými í Reykjavík. Það er því sérstakt að þessir nýju reikningar hafi ekki verið kynntir opinberlega í heild sinni á Alþingi eða annars staðar.

Ég spyr ráðherra: Er ekki nauðsynlegt fyrir framhald málsins að málið berist Alþingi með formlegum hætti? Er ekki nauðsynlegt að Alþingi meti formlega og faglega fjárhagsleg rök fyrir staðsetningu á nýrri öryggisálmu og taki síðan ákvörðun út frá því? Það er til dæmis einboðið að láta nýjan og óháðan aðila meta málið út frá þessum tveimur forsendum. En allar ákvarðanir (Forseti hringir.) um stórbyggingar af þessu tagi, hvort sem er í samgöngumálum eða þessum málum, hafa verið teknar af Alþingi en ekki einstökum ráðherrum og ríkisstjórn.