139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Magma.

[10:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við áttum ágætan fund í iðnaðarnefnd í gærmorgun þar sem við fórum rækilega yfir þetta mál og öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður ber upp var svarað. Þar kom fram að ekkert samkomulag hefði verið gert og það væri oftúlkun og allt of sterkt orðalag í þessum tölvupósti sem hv. þingmaður vitnar í og öll gögn málsins sýna það.

Hið rétta er að þreifingar áttu sér stað í lok ágústmánaðar 2010 þar sem látið var á það reyna hvort viðkomandi aðili stæði við það sem hann sagði upphaflega þegar hann kom til landsins að áhugi hans stæði ekki til annars en vera þá lítill minnihlutaeigandi í þessu fyrirtæki. Hann væri á höttum eftir samstarfi við Íslendinga og þekkingu þeirra á sviði jarðhitanýtingar. Í ljósi óvissrar stöðu málsins var kannað hvort möguleiki væri að ganga frá því fyrir fram að hann mundi aldrei ásælast forræði eða meiri hluti í þessu fyrirtæki samtímis því sem þreifingar fóru fram milli ríkisins, sveitarfélaga og lífeyrissjóða um það hvort hægt væri að mynda sterkan innlendan eigendahóp sem gæti tryggt innlent forræði og meirihlutaeign í þessu fyrirtæki. Ekki reyndust forsendur fyrir slíku samkomulagi vegna þess að það kom á daginn meðal annars að hinn erlendi aðili hafði áhuga á því að eignast að lágmarki 50% og stjórnunarlegt forræði í fyrirtækinu. Sömuleiðis var ljóst að það þyrfti meiri tíma til að ná saman þessum innlenda eigendahópi og vinna það mál betur.

Frá þessu, frú forseti, skýrðu ráðuneytin í sameiginlegri fréttatilkynningu 31. ágúst 2010. Það er því stórkostlega fyndið að hvort heldur sem er Morgunblaðið eða hv. þm. Jón Gunnarsson skuli vera að reyna að skálda þetta upp sem einhver ný tíðindi. Það var greint frá því opinberlega hvað í gangi væri af hálfu stjórnvalda með fréttatilkynningu 31. ágúst 2010. Það er öll leyndin sem var yfir þessu máli. En menn geta auðvitað haldið áfram að fiska með sína ryðguðu öngla í hvaða gruggvatni sem þeir vilja mín vegna.