139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Tilefni athugasemda minna við tillögu hæstv. forseta um kvöld- eða næturfund í kvöld byggir á því að hér er uppi töluverður vandi í þinginu sem hæstv. forseti getur a.m.k. átt þátt í að leysa því að hæstv. forseti ákveður dagskrá þingsins. Það virðist vera að vandinn sé frekar að aukast en minnka. Dagskrá þingsins í gær var að mínu mati fullkomlega óraunhæf. Í dag sýnist mér vera líklega 15 mál í viðbót á dagskrá þingsins. Ég held að rót vandans liggi í fullkomnu vanmati á því hvaða umræður þurfa að eiga sér stað um einstök mál, fullkomnu ofmati á mikilvægi einstakra mála sem hér eru umdeild.

Eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hlýt ég að spyrja hvaða dagsetningar það eru, hvaða efnisatriði máls það eru sem gera það að verkum að stjórnarráðsmálið þurfi að fá afgreiðslu í þessari viku eða þeirri næstu. Enginn hefur upplýst mig um það. En hæstv. forseti sem tekur ákvörðun um að setja þetta fremst á dagskrá hlýtur að geta upplýst okkur um það.