139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði að reyna að halda mig við að ræða þetta mál málefnalega þrátt fyrir heldur leirkennt upplegg af hálfu hv. fyrirspyrjanda. (Gripið fram í.) Svarið við fyrstu spurningunni er að innan fárra daga verða tilbúin þessi svör við einum 16 spurningum hv. þingmanns sem lögð voru fram í gegnum þingnefnd. Ástæðan fyrir því að það hefur tekið nokkurn tíma að vinna svörin er að í vissum tilvikum þarf að sannreyna upplýsingar eða bera þær undir aðila utan ráðuneytisins og það hefur tekið tímann sinn. Að öðru leyti koma svör mín fram í því sem hér fer á eftir.

Þegar starfsemi Sparisjóðsins Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur komst í þrot varð niðurstaðan og talið rétt að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur í formi sparisjóðs, en um Byr var stofnaður viðskiptabanki, þ.e. hlutafélag. Rökin voru aðallega þau hvað varðar SpKef að það var eini stóri sparisjóðurinn á svæði sem spannaði stóran hluta landsins og var viðskiptabanki atvinnustarfseminnar og almennings. Umsvif hans voru langmest af þeim sparisjóðum sem eftir voru starfandi og vonir stóðu til að hann hefði burði til að vera kjölfesta í endurreistu sparisjóðakerfi.

Í tilviki Byrs var hins vegar talið að það yrði einfaldara að vinna úr málinu með því að hafa hann í hlutafélagaformi og það yki líkurnar á því að aðrir aðilar en ríkið fengjust til samstarfs um að endurfjármagna starfsemina.

Sparisjóður Keflavíkur var stofnaður af fjármálaráðuneytinu 22. apríl 2010 samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 125/2008, um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Hann var stofnaður, eins og áður hefur verið gert í hliðstæðum tilvikum, til þess að taka við eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðs Keflavíkur og samkvæmt ákvörðun FME þar um. Því voru eignir hans og innstæður færðar yfir í SpKef. Fjármálaráðuneytið lagði fram þann eignarhlut og hófst síðan ferli sem miðaði að fjárhagslegri endurskipulagningu hans eins og gerst hefur í fjölmörgum fyrri tilvikum.

Því miður reyndist efnahagur Sparisjóðs Keflavíkur langtum veikari en áður hafði verið talið. Það kom í ljós að eignasafn sparisjóðsins var ofmetið og að sparisjóðurinn hefði ekki þá burði sem vonir stóðu til að hann hefði til að vera kjölfesta í sparisjóðakerfi. Ástandið á stórum hlutum starfssvæðis sparisjóðsins er mjög erfitt eins og kunnugt er og margt fleira kemur til. Það var því knýjandi að finna rekstri sparisjóðsins nýjan og varanlegan farveg. Miðað við mat stjórnenda sparisjóðsins, sem kemur fram í bréfi þeirra 25. febrúar 2010, var eigið fé hans neikvætt um áramótin um 11,2 milljarða og samtals vantaði því 19,4 milljarða upp á að hann uppfyllti kröfur FME um lágmarks eigið fé.

Að auki átti Sparisjóður Keflavíkur við varanlegan og mjög mikinn lausafjárvanda að etja og hafði átt lengi. Voru viðskipti hans við Seðlabanka Íslands því bundin því skilyrði að ábyrgðir af hálfu ríkisins kæmu til vegna innstæðna. Með öðrum orðum voru rekstur og möguleikar SpKef til að standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum og öðrum viðskiptamönnum í raun alfarið háðir beinum stuðningi og ábyrgð af hálfu ríkisins. Það leiddi til þess að það varð að lokum sameiginlegt mat fjármálaráðuneytisins og Bankasýslunnar að endurreisn SpKef yrði of kostnaðarsöm aðgerð sem alls óvíst væri að mundi skila ríkissjóði ásættanlegri niðurstöðu og þjóna þeim markmiðum sem upphaflega voru höfð í huga. Því varð niðurstaðan sú að fara með málið í þann farveg viðræðna við Landsbankann sem raun ber vitni.

Um Byr er það að segja að hann var stofnaður með nákvæmlega sama hætti til að taka við eignum og innstæðum í Byr sparisjóði á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sama dag, 22. apríl 2010. Samningar við kröfuhafa hans leiddu ekki til niðurstöðu, ríkið lagði fram upphafsféð, síðan var stofnefnahagsreikningur unninn af PricewaterhouseCoopers og ákveðnar niðurstöður komu út úr því. Samkomulag tókst um fjármögnun og kröfuhafar breyttu kröfum sínum þannig í hlutafé að þeir eignuðust 95% hlut í bankanum. Þetta dugði síðan ekki til og þá var sparisjóðurinn settur í söluferli.

Varðandi uppgjör fjármálastofnana er auðvitað það að segja, og ætti ekki að þurfa að kynna hv. þingmönnum, að þau eru gerð samkvæmt mati og á ábyrgð stjórnenda, stjórna og endurskoðenda fyrirtækja. Það er algjörlega á þeirra ábyrgð og kemur stjórnvöldum ekki við, hvorki núverandi né fyrrverandi. Það er ekki á ábyrgðarsviði þeirra að lögaðilar geri upp reikninga sína. Og það kemur á daginn að veikleikarnir í ársreikningum þessara fjármálafyrirtækja, Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur, eru algjörlega hliðstæðir við veikleikann í ársreikningum stóru bankanna. Voru þeir ekki býsna glæsilegir í árslok 2007 en fóru allir samt á hausinn á árinu 2008? (Forseti hringir.) Þess vegna þarf ekki að koma neinum á óvart sem þekkir þetta ferli að því miður reynist svona í pottinn búið þegar betur er að gáð.

Meðferð þessara mála (Forseti hringir.) varðandi Sparisjóð Keflavíkur og Byr er algerlega hliðstæð því sem gert var með stóru bankana, byggir á sömu (Forseti hringir.) lagaheimildum, er hluti af sömu aðgerðum og hluti af sömu yfirlýsingu stjórnvalda um að bjarga öllum innstæðum í landinu í skjól.