139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, við eigum að koma þessu máli í sáttaferli þar sem við ræðum þetta þvert á flokka og komumst að sameiginlegri niðurstöðu eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrir á árinu 2007, að þessi mál ætti ekki að afgreiða í ágreiningi. Nei, hér á að troða málinu í gegn í bullandi ágreiningi en munurinn er sá að nú er hæstv. ráðherra orðinn fjármálaráðherra og eindreginn stuðningsmaður hæstv. forsætisráðherra sem verið er að færa heilmiklar valdheimildir með þessu frumvarpi. Ég hefði haldið að hæstv. forsætisráðherra ætti að vera svo ánægð og glöð með þetta frumvarp að hún ætti að kveðja sér hljóðs og flytja ræðu um það hvað hún hyggist gera með þær valdheimildir sem hún fær verði þetta frumvarp samþykkt.

Hæstv. ráðherra er ekki á mælendaskrá. Við erum sökuð um málþóf þegar við spyrjum spurninga. Ég spurði spurninga áðan í andsvari sem hæstv. forsætisráðherra gat svarað (Forseti hringir.) en hún lét það ógert. Hún svaraði ekki þeim spurningum sem voru lagðar fyrir þannig að ég skora á hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að láta setja sig á mælendaskrá.