139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að hugleiða ýmislegt sem lýtur að umræðunni sem farið hefur fram undanfarna sólarhringa. Utan frá séð virðist það örugglega vera allkarpkennd umræða. Maður verður var við að reynt er að leika svolítið á þá strengi og segja sem svo að hér fari fram þarflaus umræða og að miklu betra væri að hún hefði aldrei farið fram. Við könnumst svo sem alveg við það. Við fengum líka að heyra það í umræðunni um Icesave, þá var okkur stöðugt sagt að allt sem við segðum væri þarflaust hjal þegar við vorum að móast við og benda á vonsku þeirra samninga sem hæstv. ríkisstjórn kom með til landsins. Sagt var að það væri mjög mikilvægt að geta lokið umræðunni og farið að afgreiða málið. Við vorum ekki alveg sammála því og settum á langar ræður og lágum undir stöðugum áróðri um að fram færi málþóf. Fjölmiðlar endurómuðu það tal en auðvitað sjáum við núna að það var margfaldlega þess virði að sýna klærnar í því máli og koma í veg fyrir að óþurftarsamningar sem hæstv. ríkisstjórn hafði gert og ætlaði að keyra í gegn óséða væru ræddir til hlítar og farið almennilega ofan í þá. Það varð þess valdandi að málið tók allt aðra stefnu en ætlunin var í upphafi.

Það er nákvæmlega sama uppi í þessari umræðu. Málið sjálft kallar á mikla umræðu. Það hefði auðvitað verið hægt að greiða fyrir henni mjög mikið ef hv. stjórnarliðar, ekki bara formaður hv. allsherjarnefndar heldur hv. stjórnarþingmenn almennt, hefðu látið svo lítið að taka þátt í umræðunni við okkur, ekki endilega með löngum ræðum, heldur með því að taka til máls um stærstu álita- og deiluefnin í allri umræðunni. Það hefði greitt mikið fyrir að heyra viðhorfin, útskýringarnar og rökstuðninginn. Ég hef sagt í þeim ræðum sem ég hef flutt hér að mér finnist mjög óþægilegt að geta ekki átt eðlileg málefnaleg samskipti í þessum málum. Ég tek eftir því að andsvörin sem ég hef mætt frá hv. stjórnarliðum hafa byggst á því að þeir hafa komið í gættina þegar ég hef hafið ræðu mína, beðið um orðið, horfið úr salnum og komið svo til að fjalla um allt aðra hluti en það sem ég talaði um í ræðu minni. Það eru ekki lýðræðisleg skoðanaskipti. Hafi menn einhverja skömm á því sem menn hafa kallað málþóf veit ég ekki hvað þeir segja um svona háttalag sem er til marks um að menn viðurkenna ekki þá lýðræðislegu hefð sem umræðan er á Alþingi. Hún skiptir mjög miklu máli. Hér skiptumst við á skoðunum með umræðu og ég vara mjög við því að menn tali niður það hlutverk Alþingis.

Ég vil leggja mitt af mörkum til að umræðan geti orðið aðeins hófstillt og held að það sé mjög gott, a.m.k. í upphafi, að við reynum að koma okkur saman um tiltekin atriði. Ég held að við ættum ekki að vera að rífast um hvort frumvarpið hafi það í för með sér að vald Alþingis hvað varðar skipan ráðuneyta og ráðherra minnki eða vaxi, það gefur augaleið. Í lögunum frá 1969 sem enn eru í gildi eru ákvarðanir um þessa hluti teknar af Alþingi. Frumvarpið gengur út á að taka það vald frá Alþingi og færa það til framkvæmdarvaldsins. Eigum við ekki að vera sammála um að staðan sé sú? Þingmenn stjórnarliðsins, sem hafa ómakað sig upp í ræðustólinn, hafa fært þau rök fyrir máli sínu að það sé mjög mikilvægt í anda nútímalegrar stjórnsýslu að hafa það sem menn kalla sveigjanleika. Ég skal viðurkenna að það fyrirkomulag sem lagt er upp með með þessu frumvarpi felur í sér meiri sveigjanleika. Það er auðveldara að skáka til ráðherrum, skáka til málaflokkum, breyta skipan ráðuneyta, sérstaklega núna eftir að búið er að gerbreyta frumvarpinu með því að taka burtu ákvæðið um hámarksfjölda ráðherra og ráðuneyta og opna líka á það að nú skuli ráðuneyti ekki lengur lagt óskipt til eins og sama ráðherrans. Þegar það tvennt er farið burtu er það miklu sveigjanlegra, það er rétt. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki jafnlýðræðislegt og áður og örugglega ekki til þess fallið að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við getum síðan rætt þessi mál út frá þeim forsendum.

Mér finnst því mjög sérkennilegt að verið sé að reyna að þræta fyrir það sem stendur svart á hvítu í frumvarpstextanum, í nefndarálitunum.

Ég held að við ættum a.m.k. að fallast á forsendurnar sem eru þarna að baki í anda þess að við viljum bæta umræðuhefðina og styrkja virðingu Alþingis, enda kemur það vel fram í nefndaráliti meiri hluta hv. allsherjarnefndar að hvergi er vikið að þeim þætti þegar verið er að útskýra stefnumörkun. Þar er fyrst og fremst verið að vísa til sveigjanleikans o.s.frv.

Hæstv. ríkisstjórn kynnti á sínum tíma áform sín um sameiningu ráðuneyta. Þá var stefnumörkunin þessi:

Til þess að spara, til þess að fá betri yfirsýn — og eitthvað fleira var nefnt í því sambandi — er mikilvægt að stefna að því að sameina ráðuneyti.

Það var gert með sameiningu í ráðuneyti sem kallast innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti og ætlunin var að búa til svokallað atvinnuvegaráðuneyti.

Nú sýnist mér hins vegar að með breytingartillögum meiri hluta hv. allsherjarnefndar á frumvarpinu eigi að hverfa frá því. Stefnumörkunin var mjög skýr: Við viljum sameina ráðuneyti. Nú er ekki hægt að skilja stefnumótunina sem glittir í í breytingartillögum meiri hlutans með frumvarpinu öðruvísi en að nú eigi að opna möguleikann á því að fjölga ráðuneytum. Það sýnist mér eiga að gera með skírskotun til þess að þar með geti orðið virkari pólitísk stefnumótun á einstökum sviðum. Ég ætla að sleppa ESB í þessu sambandi, tökum eitthvert annað dæmi: Ríkisstjórnin vill leggja áherslu á þróunarsamvinnu og kýs að búa til þróunarráðuneyti þar sem hin pólitíska stefnumörkun verður skýrari. Þá er ekki spurningin um hvort það kosti meiri peninga heldur að búa til einhvern fókus.

Sama máli gegnir um að búið er að taka burtu hámarksfjöldann og opna á skiptingu ráðuneytanna þannig að nú sýnist mér, án þess að það sé sagt eða skýrt frekar, að búið sé að sveigja af leið, kannski 90°, kannski 180°, frá þeirri stefnumörkun sem við sáum í hugmyndunum um hin stóru ráðuneyti. Getur skýringin verið sú að reynslan sem fékkst af sameiningu ráðuneytanna sé að mati hæstv. ríkisstjórnar ekki nógu góð?

Ég hef svo sem verið opinn fyrir hugmyndum um sameiningu ráðuneyta. Ég hef að vísu verið mjög ósammála hugmyndunum um að taka auðlindanýtingu undan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en ég hef ekki móast við gegn öllum hugmyndum sem komið hafa upp um sameiningu ráðuneyta. Ég skal hins vegar játa að ég hef ekki alveg sömu skoðun á málinu og ég hafði. Mér finnst nefnilega að reynslan sem við höfum fengið af sameiningu þessara tveggja ráðuneyta, með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherrum sem þar sitja á ráðherrabekkjunum, sé ekki nógu góð, að hún hafi verið á kostnað þess fókuss sem hæstv. ráðherrar geta haft á stórum málaflokkum. Tökum innanríkisráðuneytið sem dæmi þar sem hæstv. innanríkisráðherra þarf að vera upp fyrir axlir í umræðu um vegamál á Vestfjörðum einn daginn, um innflytjendur eða eitthvað þess háttar næsta dag og um stöðu lögreglunnar eða dómsmálanna þriðja og fjórða daginn. Það gefur auðvitað augaleið að þegar verkefnin eru orðin svona víðfeðm að það getur komið niður á fókusnum. Þess vegna hef ég verið að velta fyrir mér hvort það sé tilefni þess að nú er boðuð allt önnur leið en (Forseti hringir.) boðuð var með sameiningu ráðuneytanna með því frumvarpi sem er til umræðu.