139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að segja það að ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hún sagði velferðarríkisstjórn. Ég er alls ekki sammála hv. þingmanni um það. Þetta er engin velferðarríkisstjórn. Það er hins vegar sá frasi sem hæstv. ríkisstjórn notar. En verkin sýna að sjálfsögðu allt annað, þetta er engin velferðarríkisstjórn.

Við sjáum alveg hvað búið er að gerast, eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var aðför að eldri borgurum og öryrkjum. Skera átti niður um 7 milljarða en þegar menn fóru yfir fjáraukalögin 2010 var það leiðrétt um 4 milljarða þannig að niðurstaðan var að 11 milljarðar voru skornir niður hjá eldri borgurum og öryrkjum enda komu fulltrúar eldri borgara og öryrkja á fund hv. fjárlaganefndar og sögðu: Það er verið að skera allt of mikið niður og það er búið að flækja þetta svo mikið að nú þurfa samtök okkar helst að hafa lögfræðinga og hagfræðinga og bæta svoleiðis við starfsmönnum til að útskýra fyrir fólkinu hvernig í ósköpunum þetta gengur allt saman fyrir sig. Það eru skilaboðin.

Ég nefndi öryggismál sjómanna en sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Þar er skorið niður og ekki hægt að sinna þeim málum eins og á að gera. Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Á sama tíma er verið að bruðla með peninga á mörgum öðrum stöðum. Svo ég svari nú hv. þingmanni skilmerkilega, virðulegi forseti, tel ég að við gætum til að mynda komið öryggismálum sjómanna í það horf sem nauðsynlegt er, með því að bruðla ekki með peninga og setja í framkvæmdarvaldið og líka ef við mundum kannski draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka. Það mætti margt gera til að koma grunnstoðunum í lag. Við getum farið í hinn leiðangurinn þegar að því kemur að við eigum peninga fyrir því. Það er persónuleg skoðun mín. Við eigum ekki og megum ekki bruðla með peninga á tímum þegar ríkishallinn er eins og hann er.