139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Birni Val Gíslasyni fyrir ágætisspurningu og þótt ég deili —

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur hv. þingmann til að nota hefðbundin ávörp í ræðustól Alþingis.)

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef ekki ávarpað þig.

Við deilum ekki túlkun á því um hvað skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fjallar. Ég held að það geti orðið hin stóra lygi vinstri manna að bankahrunið sem varð á Íslandi hafi verið hrun einhverrar hugmyndafræði, hrun einhvers siðferðis. Ég held að það sé hin stóra lygi vinstri manna sem hinn almenni Íslendingur er smátt og smátt að átta sig á að hefur verið logið að sér með.

Það er alveg rétt að á því tímabili sem er fjallað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var Sjálfstæðisflokkurinn við völd. Sjálfstæðisflokkurinn ber náttúrlega pólitíska ábyrgð á því sem gerðist á þessum tímum, þ.e. því sem sneri að stjórnmálunum. Aftur á móti getur Sjálfstæðisflokkurinn á engan hátt borið pólitíska ábyrgð á einhverju sem einhverjir einstaklingar gerðu eða ef einhverjir hafa framið lögbrot.

Hvað varðar Stjórnarráðið tel ég mjög æskilegt að skipun Stjórnarráðs Íslands sé endurskoðuð í samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu til að það fyrirkomulag megi standa sem lengst og vera sem minnstar deilur um.