139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé of snemmt að geta sér til um hver niðurstaða málsins verði. Ég vona innilega að komi þetta frumvarp til atkvæðagreiðslu verði það fellt. Ég tel að það séu slíkir meinbugir á málatilbúnaðinum að ekki sé ástæða fyrir Alþingi Íslendinga til að gera frumvarpið að lögum.

Hvað varðar stöðu hæstvirtra ráðherra er komin upp áhugaverð staða. Hæstv. ráðherrar hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki styðja þetta frumvarp en það má virða þeim til vorkunnar að þegar ríkisstjórnin var mynduð um ákveðinn málefnasamning var ekki samið um að fara í þessa vegferð og þess vegna er komin upp sú staða að hæstv. ráðherrar virðast geta farið í andstöðu við eigin ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra án þess að það hafi einhverjar afleiðingar hvað varðar stöðu þeirra í ríkisstjórninni. Það er auðvitað mjög áhugaverð staða.

Allt ber það að sama brunni, frú forseti, það eru þannig aðstæður og þannig tímar að því miður virðist þessari ríkisstjórn fullkomlega um megn að veita einhverja forustu í þjóðmálum okkar Íslendinga vegna þess að innbyrðis ósætti, skipulagsleysi og átök á milli einstakra ráðherra eru að ríða þessari hæstv. ríkisstjórn að fullu. Það er óskandi að það gerist sem fyrst, en sá tími sem líður þar til það gerist, frú forseti, mun reynast þjóðinni dýr.