140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða frumvarp til fjárlaga við 1. umr. Það er mikilvæg umræða vegna þess að þær ákvarðanir sem Alþingi tekur þar snerta líf allra landsmanna. Í rauninni erum við með þessum fjárlögum, eins og svo oft áður, að stýra því hvort atvinnulífið kemst af stað og hvort við ætlum að auka hagvöxt og reyna að sporna við verðbólgu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gagnrýnt harðlega hvernig við framkvæmum fjárlögin. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er talað um að efla þurfi Alþingi. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að færa hluta safnliðanna til ráðuneytanna með fyrir fram gefnum reglum, eins og nýskipaður hv. formaður fjárlaganefndar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir orðaði það. Málið er hins vegar að það verða ráðuneytismenn sem taka ákvörðun um einstakar úthlutanir. Það er niðurstaðan. Þeir eru allir staðsettir í Reykjavík, hver og einn einasti.

Það er gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, það eru mörg verkefni úti á landi og margir aðilar sem notið hafa liðsinnis fjárlaganefndar í verkefnum sínum, mikilvægum verkefnum á sviði menningar, lista, ferðamála og nýsköpunar, hafa verulegar áhyggjur af þeim þætti. Hverjir eru betur til þess fallnir að ákveða og fara yfir slíkt en lýðræðislega kjörnir fulltrúar, alveg eins og við fjöllum um fjárlögin og tökum ákvarðanir að öðru leyti? Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Á undanförnum dögum hefur hæstv. fjármálaráðherra farið mikinn í fjölmiðlum landsins og reynt að sannfæra fólkið í landinu um að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi náð góðum árangri í efnahagsmálum landsmanna. (Gripið fram í.) Í ræðu sinni í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra ræddi hæstv. ráðherra um sama efni en þar kvað þó við annan tón. Aldrei fyrr í sögu íslenskra stjórnmála hefur nokkur stjórnmálamaður verið jafnreiður yfir jafngóðum árangri og hann telur að hafi náðst. Hann var ekki bara reiður við okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum reynt að benda á það sem betur mætti fara og lagt fram tillögur okkar og leiðir, hann er reiður við fræðimenn og sérfræðinga. Hann beinir reiði sinni einnig að aðilum vinnumarkaðarins, bæði ASÍ og Samtökum atvinnulífsins, jafnvel eru fjölmiðlamenn þar ekki undanskildir. Með öðrum orðum gagnrýna vel flestir ef ekki allir þeir sem gera sér far um að rýna í þær tölur sem lagðar eru á borðið fyrir alþjóð í fjárlagafrumvarpinu það harðlega og eru ósammála ríkisstjórninni um að glæsilegur árangur hafi náðst.

Kannski er vandinn sá að hæstv. ríkisstjórn, þar með hæstv. fjármálaráðherra, gerir minni kröfur og væntingar til íslenska hagkerfisins en aðrir. Við munum jú eftir viðbrögðunum við fyrsta Icesave-samningnum. Þar þótti þeim niðurstaðan glæsileg jafnvel þó að allir aðrir teldu þetta einhverja verstu samninga í sögu sjálfstæðra þjóða, jafnvel svo slæma að Hollendingar og Bretar töldu sér ekki stætt á því að standa við þá samninga og voru fljótir að samningaborðinu aftur.

Við erum því miður að upplifa sömu hluti í dag. Nú er ekki verið að sannfæra þjóðina um ágæti Icesave-samninganna heldur að hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. ráðherra, hafi náð meiri háttar árangri í rekstri ríkissjóðs. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra tók ekki við góðu búi af hrunstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og hann er duglegur, það má hann eiga. En þó finnst mér hann og ríkisstjórnin vera föst í sömu holunni, holu skattahækkana og niðurskurðar, og vinnan hefur einkennst af því að moka öllu draslinu yfir sig aftur. Ég ætla að benda á nokkur atriði sem ég tel að sýni það svart á hvítu að ríkisstjórninni hefur ekki tekist það sem hún ætlaði sér að gera.

Í fyrsta lagi verðum við að skoða vanskil heimilanna. Við getum ekki farið í gegnum fjárlagaumræðuna nema að taka vanskil heimilanna. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að 8,5% af Íslendingum eldri en 18 ára eru í alvarlegum vanskilum, 25.685 manns eru í alvarlegum vanskilum. Það er ekki bara alvarlegt, það er grafalavarlegt, virðulegi forseti.

Hæstv. fjármálaráðherra kom hér áðan og sagði að fjöldi á vanskilaskrá hefði verið meiri árið áður. Könnunin fjallar ekki um fjöldann á vanskilaskrá, hún fjallar um fjöldann sem er í verulegum vanskilum. Þar liggur munurinn á því tvennu.

Í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009 og 2013 setti ríkisstjórnin sér markmið. Það voru engir aðrir sem bjuggu til þessi markmið fyrir hæstv. ríkisstjórn en hún sjálf, hæstv. fjármálaráðherra er sjálfur skrifaður fyrir skjalinu um þeirra eigin markmið. Hvernig skyldi þeim svo hafa tekist til? Ef við værum að tala um fyrirtæki og forstjórinn mundi setja sér markmið sem hann næði ekki yrði honum einfaldlega gert að segja upp eða hann sæi sóma sinn í því að hafa frumkvæði að því. Þannig er staðan.

Samkvæmt þessu er verðbólgan miklu hærri en menn töldu að hún yrði á þessu ári. Árið 2011 átti verðbólgan að vera komin í 1,7% samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar. Hún er langt frá því, virðulegi forseti, samkvæmt nýjustu tölum er hún komin vel fyrir 4%. Það er grafalvarlegt mál og það er eitt af því sem bitnar á skuldum heimilanna.

Það er annað atriði sem mér finnst að við verðum að skoða þegar við skoðum hvort ríkisstjórnin hafi staðið við eigin markmið, það er hvort þeim hafi tekist að auka hagvöxt. Samkvæmt því skjali sem hún lagði sjálf fram átti að vera um 4,4% hagvöxtur á árinu 2011. Nú spáir Hagstofan um 3,9% hagvexti og Seðlabankinn spáir mun minni hagvexti. Ég held að miðað við horfur frá því í júní sé hagvaxtarspá Seðlabankans mun nær því sem koma skal en spá Hagstofunnar frá því í júní í sumar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur meira að segja lækkað hagvaxtarspá sína frá því í lok ágúst úr 3,1% hagvexti í 2,5%.

Þetta er það sem metur hvað best hvort ríkisstjórninni hafi tekist ætlunarverkið, hvort ríkisstjórninni hafi tekist að uppfylla eigin markmið. Það eru ekki markmið sem aðrir settu þeim. Ég sagði á sínum tíma að mér þættu þessi markmið vera lág vegna þess að ég taldi að það byggi miklu meiri kraftur í íslenska hagkerfinu en þessar spár gæfu til kynna, að hægt væri að setja sér hærri og metnaðarfyllri markmið en var gert á sínum tíma.

Seðlabankinn segir:

„Í spánni er gert ráð fyrir 1,6% hagvexti árið 2012 […]“ — sem er enn verri hagvaxtarspá en fyrir þetta ár. „Má það helst rekja til framhlaðnari einkaneysluferils auk seinkunar stóriðjuframkvæmda.“

Þar erum við komin að því sem vantar alveg í fjárlagafrumvarpið og sem vantaði alveg í ræðu hæstv. fjármálaráðherra rétt áðan og eins í ræðu hv. nýskipaðs formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur: Þar er hvergi neina fjárfestingu að finna. Þar eru hvergi atriði sem eiga að koma hagvextinum af stað til að minnka atvinnuleysi og lækka verðbólgu, hvergi.

Hæstv. fjármálaráðherra talar í sífellu um frumjöfnuð, að markmið hvað frumjöfnuð varðar hafi náðst. Mér finnst vera töluverður blekkingaleikur á ferðinni vegna þess að í skýrslunni sem fylgir með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að frumjöfnuður í rekstri, þ.e. rekstrarafkoma án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda. Með öðrum orðum, þegar við tölum um frumjöfnuð erum við ekki að tala um hlutina með vöxtum. Hvaða fjölskyldufaðir mundi leyfa sér að segja við fjölskyldu sína: Ja, nú erum við búin að skera svo mikið niður í rekstri heimilisins að við erum loksins undir þeim tekjum sem við öflum, þetta fer reyndar allt lækkandi?

Húsmóðirin á heimilinu spyr: Hvað með bílinn? Hvað með vaxtagreiðslurnar af bílnum og húsnæðinu, er það ekki tekið með í rekstrinum? Að sjálfsögðu, nákvæmlega. Við greiðum nefnilega himinháa vexti af skuldum ríkissjóðs.

Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að skuldastaðan er betri en á horfðist fyrir ekki svo mörgum árum síðan og eiginlega fyrir mjög stuttu síðan, vegna þess að þá stóð til að samþykkja Icesave. Nú minnist hæstv. ríkisstjórn ekki á Icesave-samningana og þær deilur sem voru hér mánuð eftir mánuð þar sem stjórnarandstaðan barðist fyrir því að ríkissjóður mundi ekki taka á sig þá okurvexti sem voru í Icesave-samningunum, um 40 milljarða á ári. Hvernig væri staðan í þessu fjárlagafrumvarpi hvað varðar niðurskurð og annað ef vextirnir hefðu verið jafnháir og Icesave-samningarnir fólu í sér? Þá væri jafnvel hægt að tala um síðasta samninginn sem var þó langskástur af þeim þremur sem við höfum séð.

Á bls. 192 í fjárlagafrumvarpinu er að finna afsökunarbeiðni ríkisstjórnarinnar á því að standast ekki eigin markmið. Nú stendur til að setja ný markmið, lengja í þeim markmiðum sem hún setti sér sjálf. Það er athyglisverð setning á bls. 192. Þar segir um ástæður fyrir þessari endurskoðun á ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar:

„Í þriðja lagi er útlit fyrir að hagvöxtur fari hægar af stað og verði ekki jafn þróttmikill og vonast var til í fyrri áætlun. […] Við slíkar aðstæður þarf að meta hvort aðhaldsstig ríkisfjármálanna kunni að hafa of mikil samdráttaráhrif og hamlandi áhrif á efnahagsbatann.“

Ég virði það að hæstv. ríkisstjórn er að opna augun fyrir því að kannski hafi hún gengið of hratt fram í niðurskurði í velferðarkerfinu. Ég vona líka að unnið verði eftir þessu vegna þess að það er það sem við í Framsóknarflokknum og aðrir í stjórnarandstöðunni höfum bent á aftur og aftur. Það væri miklu frekar að reyna að koma á fjárfestingu, auka hagvöxt til að ná nýjum tekjustofnum inn í staðinn fyrir að skera endalaust niður og skattpína fyrirtæki og almenning í landinu.

Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra leggur ofuráherslu á að ríkisreksturinn verði aftur sjálfbær og að skuldastöðu ríkissjóðs verði aftur komið í viðunandi horf með lægri vaxtabyrði sem gefi meira svigrúm fyrir útgjöld annarra málaflokka. Stærsti hluti tekjuöflunarinnar núna er að selja eigur íslenska ríkisins í bönkunum. Það hefur nákvæmlega ekkert með sjálfbærni í ríkisfjármálum að gera. Sjálfbærni fjallar um að ná inn nýjum tekjustofnum, að hagræða í rekstri, ekki selja frá sér. Það verður ekkert sjálfbært með þeim hætti.

Svo kemur hér góð setning sem vert er að hrósa ríkisstjórninni fyrir, en hér segir:

„Fyrir lítið ríki eins og Ísland er áhættusamt að búa við mikla skuldsetningu og vera þar með illa í stakk búið til að mæta áföllum í þjóðarbúskapnum eða t.d. sviptingum í vaxtakjörum á fjármálamörkuðum.“

Hv. þm. Þór Saari spurði hæstv. fjármálaráðherra út í aukna skuldabyrði íslenska ríkisins. Hann hefur af því áhyggjur eins og við hin í stjórnarandstöðu, ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni. Fyrir ekki svo löngu síðan stóð til að auka skuldsetninguna um tugi milljarða. Nú viðurkenna menn að fyrir lítil ríki eins og Ísland sé mjög áhættusamt að búa við mikla skuldsetningu.

Ég var afar ósáttur að heyra svör hæstv. fjármálaráðherra við þeirri fyrirspurn um að kannski þyrfti að endursemja um skuldir íslenska ríkisins. Ég held og vona að ríkisstjórnin í heild sinni hugsi um og skoði hvernig hægt sé að ræða vaxtabyrði íslenska ríkisins.

Virðulegi forseti. Mér hefur ekki gefist tími til að fara yfir niðurskurð í heilbrigðismálum eða þær skattahækkanir sem eru fyrirhugaðar á almenning og fyrirtæki í landinu. (Forseti hringir.) Mér gefst kostur á því í ræðu seinna í dag og þar mun ég halda áfram máli mínu.