140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég get ekki látið hjá líða að hefja mál mitt á því að vitna í þau ummæli sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson viðhafði áðan um laun þingmanna fyrir tiltekin störf þar sem hann vitnaði til svars Ríkisendurskoðunar við spurningu sem hann beindi til stofnunarinnar á sínum tíma. Mér er hulin ráðgáta hvers vegna í ósköpunum hv. þingmaður kýs að fara með rangindi í ræðustól hvað þetta varðar, því að bæði í skriflegu svari ríkisendurskoðanda um þessar spurningar og í munnlegum útskýringum Ríkisendurskoðunar í fjárlaganefnd um þessar spurningar hv. þingmanns kemur skýrt fram að hvorki sá sem hér stendur né þeir formenn fjárlaganefndar sem hann hefur starfað með hafa nokkru sinni fengið greitt neitt sérstaklega fyrir þá vinnu sem við höfum innt af hendi við undirbúning fjárlaga eða við ríkisfjármálavinnu almennt.

Í svari Ríkisendurskoðunar við spurningum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar segir um laun og þóknanir samráðshóps með fjórum þingmönnum hvors ríkisstjórnarflokks — og þar eru taldir upp alþingismennirnir Árni Þór Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar, Lilja Mósesdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Ögmundur Jónasson — að ekki hafi verið greidd þóknun fyrir störf í starfshópnum.

Skýrara getur það ekki verið og til frekari áréttingar á túlkun þessa svars sem Ríkisendurskoðun veitti hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og kom til umræðu í fjárlaganefnd var þetta ítrekað, að þingmenn hefðu ekki fengið greidd laun fyrir störf sín hvað þetta varðar.

Ég geri ekki kröfu til hv. þingmanns um að hann biðjist afsökunar á þessum ummælum sínum.

Virðulegi forseti. Það er ágætt þegar verið er að hefja umræðu um fjárlagafrumvarp, rétt eins og við erum að gera hér, að reyna að átta sig á því hvaðan við erum að koma, hvaðan við lögðum af stað upphaflega og hvernig árangur hefur náðst á leiðinni ef þá einhver árangur hefur orðið. Það er auðvitað umdeilanlegt eins og hér hefur komið fram í ræðum þingmanna í dag.

Ég hef leikið mér að því að undanförnu þegar ég hef haft til þess tíma að glugga í blöð frá haustinu 2008 og í ræðu minni á septemberþingi vitnaði ég í einhver slík blaðaskrif til að glöggva mig á því hvaðan við lögðum af stað í þá ferð sem við erum stödd í hér í dag. Ferðinni er langt frá því að vera lokið.

Í Fréttablaðinu í október 2008 er talsvert fjallað um efnahagsmálaástandið á Íslandi. Í því blaði furðar upplýsingafulltrúi Flugleiða sig á því að fólk sé enn að bóka flug til Íslands. Hann segir, með leyfi forseta:

„Eftirspurn eftir flugi til útlanda hefur snarminnkað, en fólk er enn að bóka sig til Íslands.“

Hann er dálítið undrandi á því sem segir sitthvað um það ástand sem hér var.

Í erlendum tímaritum þar sem fjallað er um efnahagsmál er ekki talað mjög vinsamlega til okkar fallega lands eða þeirra stjórnarhátta sem hér ríktu. Þar er fólk hreinlega varað við því að fara til Íslands og í einu finnsku viðskiptablaði er ástandinu á Íslandi líkt við Simbabve, bæði pólitískt og efnahagslega. Með leyfi forseta segir í blaðinu:

„Gjaldeyrisviðskipti á Íslandi minna nú helst á það sem tíðkaðist í Austur-Evrópu á sovéttímanum.“

Í blaðinu eru þeir sem eiga leið til Íslands varaðir við því að kaupa sér gjaldeyri áður en þeir leggja af stað því að evrum megi annaðhvort skipta í íslenskar krónur á opinberu gengi eða á öðru og betra óformlegu gengi á götum úti.

Svona er viðhorfið sem við fengum þá.

Hv. þingmaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, segir í viðtali við blaðið í byrjun október 2008 að hann hafi brugðist skjótt við þeim alvarlegu atburðum sem hafi orðið í efnahagslífinu og látið gera úttekt á birgðastöðu lyfja í landinu. Tvö dreifingarfyrirtæki eru með yfir 90% af öllum lyfjum í landinu. Eftir að hafa farið yfir birgðir hefur komið í ljós að þau eiga um það bil þriggja mánaða lyfjabirgðir í landinu og seðlabankastjóri þáverandi telur ástæðu til að ítreka að ekki sé verið að eyða gjaldeyri í einhverja vitleysu, það eigi að nota hann til að kaupa mat, nauðsynjavörur og lyf.

Í blaðinu er sömuleiðis stutt auglýsing frá starfsmönnum Glitnis, þess ágæta banka sem var, þar sem starfsfólkið þakkar fyrir þá þolinmæði og þann skilning sem viðskiptavinir hafi sýnt starfsfólki og bankanum. Segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands hefur áréttað að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi eru tryggðar að fullu.“

Í blaðinu er viðtal við sex aðila í samfélaginu sem fara yfir ástandið og eru öll sammála um meginniðurstöður, þ.e. að ástandið sé erfitt og eigi eftir að verða erfiðara. Þetta eru sérfræðingarnir Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, Páll Skúlason heimspekingur, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, sem ræða þarna málin og hvað sé fram undan. Niðurstaða þeirra er einum rómi sú að bjartsýni sé eini valkosturinn en það séu erfiðleikar fram undan. Kannski höfðu þau margt til síns máls á þeim tíma þó að einhverjum sé það gleymt núna.

Sumarið 2009 lagði fjármálaráðherra fram skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum til ársins 2013. Með leyfi forseta segir eftirfarandi í skýrslunni:

„Í áætlun þeirri, sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. […]

Meginmarkmið við stjórn ríkisfjármála við þær aðstæður sem skapast hafa eru þau a) að frumjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður á árinu 2011, b) að heildarjöfnuður ríkissjóðs verði orðinn jákvæður á árinu 2013 og c) að til lengri tíma litið verði skuldsetning ríkissjóðs ekki meiri en sem svarar til 60% af VLF.“

Á grundvelli þessara meginmarkmiða setti ríkisstjórnin sér það markmið, eins og fram kemur, að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður á því ári sem við erum nú á, þ.e. 2011, og aukist síðan á árinu 2012 og enn 2013. Það er athyglisvert, virðulegi forseti, að með markmiðunum sem þarna eru sett fyrir árið 2012, um 5,1% frumjöfnuð ríkisfjármála, erum við eiginlega farin að nálgast heildarjöfnuð í ríkissjóði á árunum fyrir hrun.

Í kjölfar hrunsins tók Alþingi það fjárlagafrumvarp sem þá var til umræðu til gagngerrar endurskoðunar, þ.e. haustið 2008, í kjölfar þess hruns sem þá varð. Gripið var til aðgerða til að reyna að mæta þeim áföllum sem ríkissjóður varð fyrir og stefndi í að yrðu enn frekar. Þær aðgerðir voru blandaðar og fólust í nýrri tekjuöflun og niðurskurði í útgjöldum. Áætlað var að þær aðgerðir sem þá var gripið til mundu skila 33 milljörðum upp í fallið sem var þá að verða á rekstri ríkissjóðs.

Þegar kom fram á árið 2009 varð hins vegar ljóst að grípa þyrfti til enn frekari aðgerða en áður hafði verið gripið til til að koma í veg fyrir algjört fall ríkissjóðs og frekari hörmungar í efnahagslífinu en þá þegar höfðu orðið. Í upphafi kjörtímabilsins sumarið 2009 voru gildandi fjárlög þess árs opnuð og ráðist í umfangsmiklar og nauðsynlegar aðgerðir á miðju því ári. Þær aðgerðir fólust í frekari samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs það sem eftir lifði þess árs auk tekjuöflunar sem skilaði á endanum 22 milljörðum til viðbótar upp í það tap sem varð í kjölfar hrunsins.

Þær aðgerðir sem þarna var gripið til snerust ekki eingöngu um að afla tekna og draga úr útgjöldum heldur var ekki síður ráðist í ákveðnar kerfisbreytingar, m.a. á skattkerfinu. Markmiðið var að gera skattkerfið réttlátara og skilvirkara en áður hafði verið. Tekið var upp nýtt þrepaskipt skattkerfi þar sem auknar byrðar vegna hrunsins voru færðar í efri lög tekjuskalans og settur var á sérstakur auðlegðarskattur sem skilaði milljörðum í auknar tekjur. Fjármagnstekjuskattur var færður til þess sem þekktist í viðmiðunarlöndum okkar og skattur á arð og hagnað og tekjuskattur á fyrirtæki sömuleiðis. Fram að því hafði skattkerfið verið lagað að þeim sem höfðu úr meira að spila á kostnað hinna.

Það er athyglisvert hvað þessar aðgerðir hafa náð að skila góðum árangri og í nýrri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG kemur fram að Ísland er nú í 12. sæti OECD-ríkja varðandi tekjuskatt á einstaklinga og í 11. sæti Vestur-Evrópulanda varðandi fjármagnstekjuskatt sem segir sína sögu um þá gríðarlegu skattpíningu sem hér hefur verið haldið fram að ráðist hafi verið í.

Aðgerðirnar sem gripið var til á þessum tíma voru ekki síst mikilvægar vegna þess að með þeim var Ísland leyst úr efnahagslegri einangrun sem það var í og rekja má til efnahagshrunsins. Aðgerðirnar skiluðu þeim árangri að það tókst að fjármagna gjaldeyrisforða landsins og þær opnuðu á fjármagnsviðskipti og viðskipti með vöru og þjónustu sem áður voru við frostmark.

Mér segir svo hugur, virðulegi forseti, að þegar litið verður til baka muni þær aðgerðir sem gripið var til um sumarið 2009 teljast í hópi þeirra mikilvægustu sem gripið var til í kjölfar hrunsins og þær muni hafa sett mark sitt á það sem á eftir kom og lagt grunn að þeim árangri sem náðst hefur.

Í fjárlögum 2009 var haldið áfram á sömu braut, þ.e. farin blönduð leið nýrra tekna með samdrætti í útgjöldum með það að markmiði að hlífa velferðarkerfinu sem mögulegt var, en taka þess í stað meira úr rekstri og stjórnsýslu ríkisins. Gripið var til aðgerða til að lækka útgjöld ríkisins um nærri 44 milljarða kr. sem námu um 10% af fjárlögum ársins 2009. Að hluta til komu þær aðgerðir sem gripið var til á miðju ári 2009 inn í aðgerðirnar 2010 af fullum þunga sem skipti gríðarlegu máli. Auk þess var mikið aðhald sýnt í launa- og verðlagshækkunum fjárveitinga sem kom í veg fyrir útgjöld sem námu um 11 milljörðum kr. á því ári. Í heild námu aðgerðir af fjárlögum ársins 2010 því um 55 milljörðum kr. þegar upp var staðið.

Fjárlög ársins 2011 voru fyrirsjáanlega þau erfiðustu sem við mundum þurfa að glíma við vegna efnahagshrunsins. Þær aðgerðir sem felast í fjárlögum yfirstandandi árs koma ofan í miklar aðhaldsaðgerðir áranna þar á undan og augljóst að í ár yrði þetta eitt erfiðasta árið á þeirri vegferð sem við erum í við að reyna að skapa okkur nýtt og betra efnahagslegt umhverfi hér á landi.

Það urðu allmikil átök um fjárlagagerðina í fyrrahaust, bæði á þingi og utan þess eins og búast mátti við. Niðurstaðan varð samt sem áður sú að markmið frumvarpsins náðu fram að ganga og fjárlögin sem á endanum voru samþykkt uppfylltu þau efnahagslegu markmið sem við höfðum sett okkur þá í samstarfi við aðrar þjóðir. Ekkert bendir til annars en að fjárlögin muni ganga eftir eins og ætlast var til og þar með höfum við náð að fleyta okkur yfir erfiðasta hjallann á leiðinni út úr hruninu.

Því til vitnis, virðulegi forseti, langar mig til að vitna í mánaðaryfirlit Fjársýslu ríkisins yfir fyrri helming þessa árs þar sem segir:

Innheimtar tekjur ríkissjóðs í heild námu 214,1 milljarði kr. fyrstu sex mánuði ársins 2011 og voru þær 4,6 milljarða umfram áætlun. Gjöld ríkissjóðs námu alls 249,1 milljarði kr. til júníloka 2011 og voru 2,8 milljörðum kr. undir áætlun sem byggð er á fjárlögum og fluttum heimildum frá fyrra ári.

Þetta undirstrikar það sem ég var að fjalla um hér áðan og nefna, það er ekkert í spilunum sem bendir til neins annars en að fjárlög ársins í ár muni standast, erfiðustu fjárlögin sem við reiknuðum með að þurfa að fara í og þær gríðarlega erfiðu og sársaukafullu aðgerðir sem gripið var til í þeim hér í fyrrahaust.

Það frumvarp sem við ræðum hins vegar í dag er vitnisburður um að við höfum uppskorið eins og til hefur verið sáð í fjárlögum síðustu ára og ég hef hlaupið hér yfir í grófum dráttum. Frumvarpið er vitnisburður um það að við höfum náð tökum á efnahagsástandinu og að nú eru að baki okkar mestu erfiðleikar, að nú verði ekki meira lagt á almenning og að komið sé að öðrum að axla byrðarnar.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði verði um 18 milljarðar undir lok næsta árs og erum við þá komin langan veg frá þeim stað sem við lögðum upp frá vorið 2009 og ég nefndi áðan. Stór hluti nýrra tekna sem áætlað er að ná í fyrir ríkissjóð á næsta ári kemur frá fjármálafyrirtækjum og stórfyrirtækjum í landinu.

Það var ánægjulegt, virðulegi forseti, að heyra formann Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir stuðningi við þau áform að krefja nú fjármálafyrirtækin um að skila sínum skerf upp í þá hít sem fjármálakerfið sjálft skildi eftir sig á sínum tíma, haustið 2008. Það gerði hann í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi. Þær yfirlýsingar gefa væntingar um að meiri samstaða verði nú um gerð fjárlaga en verið hefur undanfarin ár. Þær yfirlýsingar eru líka til vitnis um að stjórnarandstaðan, í það minnsta Sjálfstæðisflokkurinn, hefur ákveðið hvað þetta varðar að láta ekki pólitíska andstöðu sína við stjórnarflokkana ráða för heldur taka málefnin framar og þar með hagsmuni þjóðarinnar. Það finnst mér ábyrg afstaða og ég fagna því yfirlýsingum Sjálfstæðisflokksins í þessa veru.

Hér að framan hef ég rakið í stórum dráttum þau fjárlög sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur staðið að á yfirstandandi kjörtímabili. Þau fjárlög hafa náð fram að ganga að langstærstum hluta og hafa rúmast innan þeirrar efnahagsstefnu sem við settum okkur í upphafi kjörtímabilsins. Það hefur hvorki verið átakalaust né án fórna, hvorki fyrir almenning í landinu, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög né aðra. Það var heldur ekki við því búist að það yrði okkur auðvelt eða sársaukalaust að vinna okkur út úr því fordæmalausa efnahagshruni sem hér varð haustið 2008. En árangurinn blasir við, það hefði líklega mátt gera eitthvað betur en árangur er það samt sem áður og því getur enginn neitað með nokkurri sanngirni.

Þetta þýðir þó ekki að við séum komin á áfangastað. Það er langur vegur frá því að við höfum náð þeim fullkomna árangri að við getum hér eftir sest niður og beðið eftir því að lífið leiki við okkur á hverjum einasta degi. Það versta er samt yfirstaðið, það er óumdeilt, og það undirstrikar ekki eingöngu þann árangur sem við höfum náð við efnahagsstjórnina heldur ekki síður þær aðferðir sem við höfum beitt við að ná þessum árangri.

Undir lok þessa mánaðar, virðulegi forseti, verður haldin stór ráðstefna á Íslandi um árangur íslenskra stjórnvalda í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmsar þjóðir við að ná landinu upp úr hruninu. Á þá ráðstefnu munu margir af þekktustu efnahagssérfræðingum heims mæta og ræða sín á milli við íslensk stjórnvöld og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um árangurinn sem hér hefur náðst en ekki síst þær leiðir sem við höfum farið hér á landi í þeim efnum. Því er nefnilega stundum haldið fram í þessum sal og utan hans að allt það sem hér hafi verið gert sé samkvæmt fyrirframskrifaðri forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra landa sem hafa hjálpað okkur úr vandanum. Fátt er fjær sanni, virðulegi forseti, eins og dæmin sýna.

Meðal þeirra sem munu sitja þessa ráðstefnu er nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sem seint mun teljast til æstustu aðdáenda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða þeirra leiða sem sjóðurinn hefur ráðlagt og krafið þær þjóðir um að fara sem hann hefur áður átt leið um. Þegar sá atburður varð að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvarf héðan af landi brott í sumar, og var nú ekki mikið veður gert út af því, skrifar Paul Krugman á heimasíðu sína, með leyfi forseta:

„Ísland hefur náð óumdeildum árangri án þess að þurfa að breyta samfélagskerfinu sínu, án þess að koma sér undan skuldbindingum. Ísland hefur sýnt mikinn aga í efnahagsmálum, Ísland hefur beitt óhefðbundnum hætti við að ná tökum á efnahagsmálum sínum, þveröfugt við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hingað til ráðlagt, og það hefur virkað.“

Þetta segir þessi nóbelsverðlaunahafi í hagfræði sem hefur fjallað mikið um efnahagsmál heimsins í kjölfar kreppunnar 2008 og er einn af virtustu sérfræðingum á því sviði. Það verður fróðlegt, virðulegi forseti, og ég hvet alla til þess sem hafa á því nokkur tök og ekki síst alþingismenn og þá fjárlaganefndarmenn að sitja þá ráðstefnu sem hefur verið auglýst og boðuð hvað þetta varðar þar sem við getum þá hlýtt á fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fulltrúa íslenskra stjórnvalda, innlenda og erlenda sérfræðinga, fara yfir þann árangur — við skulum segja meinta árangur þar til annað kemur í ljós — sem hér hefur náðst í efnahagsmálum og þá aðferðafræði sem hefur verið beitt við að ná þessum árangri sem hvergi hefur náðst áður í heiminum við samsvarandi aðgerðir með viðlíka árangri og hér hefur orðið og fjárlagafrumvarpið sem við ræðum hér um ber vitni um.