140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir andsvarið. Það sem ég vildi koma að í minni stuttu ræðu og hafði ekki nema tíu mínútur til að fara yfir, við 1. umr. að minnsta kosti, er hvað gerist þegar ákvarðanir eru teknar um niðurskurð heilbrigðisstofnana. Nú er það hæstv. velferðarráðherra sem spyr og ég nefndi sérstaklega það sem gerðist við fjárlagagerðina fyrir árið 2011 gagnvart heilbrigðisstofnunum á Vestfjörðum. Þar á ferð var í raun og veru ákveðin blekking. Menn ætluðu sér að skera niður um stóra prósentutölu og mikla peninga en niðurstaðan varð á endanum sú, og sýnt var fram á það með skýrslunni, að við vorum að stórum hluta að færa til kostnaðinn. Það finnst mér ekki að við eigum að gera. Við þurfum að gera þetta á betri og faglegri hátt.

Núna er stefnt að því í apríl á næsta ári, eins og hæstv. ráðherra veit, að við munum ræða rammana og þá hafa menn meiri möguleika á að bregðast við, frekar en á síðustu dögum ársins eins og til að mynda í fyrra þegar við frestuðum einum þriðja af niðurskurðinum vegna þess að hann var ekki framkvæmanlegur, við samþykktum ekki lokafjárlögin við 3. umr. fyrr en í lok desember. Þessu umhverfi þurfum við að breyta og um það þurfa ekki að vera pólitískar deilur. Það er svo mikilvægt að við séum meðvituð um hvað við erum að gera.

Það er líka annað sem ég held að við þurfum að velta fyrir okkur sem hefur kannski lítið verið rætt. Þegar við skerum niður á einni heilbrigðisstofnun, getur hún þá til að mynda komið dýrum rannsóknum yfir á Landspítalann? Geta menn þá hagrætt hjá sér með því að koma hlutum yfir á Landspítalann þó svo þeir geti gert þá sjálfir? Ég veit það ekki. Þetta þurfum við að ræða því það er heildarniðurstaðan sem ræður og það er mjög óæskilegt, óheppilegt (Forseti hringir.) og ósanngjarnt að setja ákveðna heilbrigðisstofnun alltaf í uppnám á hverju ári.