140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það svo þegar hv. þingmaður spyr mig hvort ég hafi ekki áhyggjur af því að lagaramminn muni rýmkast í framtíðinni sem gæti þá leitt til þess, eins og hv. þingmaður benti á, að eitthvað gæti farið á verri veg en til er ætlast að ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því. Ég verð að viðurkenna það.

Eins og málið er lagt upp núna þar sem velferðarráðherra skipar starfshóp sem undirbýr frumvarpið þá treysti ég því og trúi — þetta mál fer til umsagnar í nefnd og við fáum um það umsagnir — að það frumvarp sem verður smíðað og vonandi samþykkt á Alþingi verði með þeim hætti að þar verði tekið á öllum þessum álitamálum. Við megum ekki gleyma því að markmiðið með því að setja lögin og samþykkja tillöguna er að þetta sé gert í velgjörðarskyni. Það hefur enginn neitt annað í huga, alveg sama hver er. Ég trúi því og treysti að þetta verði með þeim hætti og ef einhverjir ágallar koma upp eftir ákveðinn tíma tökum við væntanlega á því. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að þetta muni rýmkast en ég bendi hins vegar á, af því að hv. þingmaður spyr þessara spurninga, að vegna þess að þetta er bannað í dag verðum við að setja lög á Alþingi til að þetta verði að veruleika. Við verðum að stíga skrefið hér til að heimila þetta. Ég ítreka að ég hef ekki áhyggjur af því hvernig þetta þróast í framtíðinni. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því fólki sem þarf að bíða eftir því að geta eignast börn.