140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar telji rétt að fólk tapi á því að spara. Sannarlega er það ekki. Það er auðvitað alvarlegt ef það er viðvarandi ástand að fólk tapi á því að spara og algerlega óviðunandi því að það mun fæla fólk frá sparnaði til lengri tíma og gera okkur erfitt fyrir um uppbyggingu efnahagslífs og að þjóna heimilunum í landinu með lánsfjármagni til lengri tíma.

Hins vegar eigum við að búa með ólíkum hætti í haginn fyrir sparnað eftir því hvort við erum á þenslutímum eða samdráttartímum, eftir því hvort við þurfum mjög á auknum sparnaði að halda eða höfum aðra forgangsröðum í efnahagsmálum. Ég tel að við núverandi samdrátt, hið mikla fall sem orðið hefur í landsframleiðslu og það mikla atvinnuleysi sem við glímum við sé það tímabundið forsvaranlegt að draga úr hvatningu til sparnaðar eins og sérstakri skattaívilnun vegna séreignarsparnaðar til að fólk hafi meira fé til ráðstöfunar og svo meiri neysla, meiri fjárfestingar og meiri vinna verði í landinu því að við högnumst þegar upp er staðið öll á því að skipa málum þannig tímabundið þó að það megi ekki vera þannig til langframa.

Sú refsing við sparnaði sem ég tel hins vegar að sé algerlega óviðunandi og þingmaðurinn nefndi ekki er sú viðbótarrefsing sem aldraðir og örorkulífeyrisþegar verða fyrir ofan á lága eða neikvæða ávöxtun, ofan á skattlagningu á rýrnandi eignir bætist tekjutenging þess í almannatryggingakerfinu. Þá er það beinlínis farið að hvetja ákveðna hópa í samfélaginu til að taka fjármuni sína út úr bankanum og geyma þá heldur undir koddanum. Það er ástand (Forseti hringir.) sem við sættum okkur alls ekki við og ég hvet hv. þingmann til að því verði breytt við endurskoðun almannatryggingalaganna.