140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:25]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir svolítilli óánægju minni með málflutning hv. þm. Jóns Gunnarssonar, um að það þurfi einfaldlega ekkert að ræða rammaáætlun eða kannski fara eftir henni yfir höfuð, það þarf bara að fara af stað og virkja strax, í fyrramálið helst eða í kvöld, drífa þetta af. Enn einu sinni er verið að dingla einhverjum lottóvinningum framan í landsmenn á kostnað vandvirkni og á kostnað umhverfisins. Það er einfaldlega óábyrgt að fara fram með þessum hætti og að fara enn einu sinni af stað með æðibunugangi í virkjanamálum. Vönduð umræða um rammaáætlun er einfaldlega nauðsynleg fyrst, og að þar verði stillt upp mismunandi sviðsmyndum Landsvirkjunar úr skýrslunni miðað við færslur virkjanakosta milli verndar-, bið- og nýtingarflokka, því skýrsla rammaáætlunar er ekki endanlegt plagg í þeim málum. Það verður einfaldlega tekist á um það í atvinnuveganefnd og í þinginu hvað verður í hverjum flokki. Ég held að það hafi verið mistök hjá hæstv. iðnaðarráðherra á sínum tíma að láta þá röðun fara fram í ráðuneytinu sjálfu, heppilegra hefði verið fyrir endanlega niðurstöðu ef þeir sem unnu rammaáætlunina hefðu sinnt því verki.

Stefna Sjálfstæðisflokksins og hv. málshefjanda umræðunnar hefur ekki verið til góðs. Hún hefur skapað sundrungu í samfélaginu árum saman og áratugum saman og ótrúlega fá störf fyrir allt of lágt raforkuverð. Eitt megavatt í virkjaðri orku fyrir stóriðju, álver, skapar eitt starf að meðaltali. Í ylrækt skapar það 15 störf. Allt hjal um sköpun starfa er því út í hött. Í álverum á Íslandi vinna um 1.400 manns eða um 0,8% af vinnuaflinu. Þannig að þetta „eitthvað annað“ sem menn eru svo gjarnir á að reyna að gera grín að, spjarar sig hreint ágætlega.