140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sagði í ræðu minni að ég teldi þingið sýna þessari umræðu lítinn áhuga en ég veit að þeir hv. þingmenn sem sitja í hv. fjárlaganefnd, sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir stýrir og er formaður fyrir, munu að sjálfsögðu fara yfir þetta. Við deilum þeim áhyggjum sem komu fram í sameiginlegu áliti nefndarinnar um hinar svokölluðu 6. gr. heimildir og það þurfi að þrengja þær og fara mjög vel yfir hvað þær þýða í raun og veru.

Ég hef rætt það töluvert, bæði hér í þingsal og á fundum nefndarinnar, að ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að fjárheimildin sem slík sé mörkuð inn í fjárlögunum og ég benti á í ræðu minni að hún væri áætluð 320 milljónir. Síðan er hér texti sem segir að það sé heimilt að fara kannski með tugi milljarða af stað. Hvað segir framkvæmdarvaldið þá? Það segir: Við erum með 6. gr. heimild í lögunum, í textanum, við vitum bara ekki hverjar tölurnar verða, þær munið þið sjá seinna. Hvenær sjáum við þær? Væntanlega eftir tvö ár héðan í frá því það er mjög hæpið að ríkisreikningur fyrir árið 2011 klárist nema rétt fyrir vorið 2013, ef við breytum vinnubrögðunum. Þess vegna verðum við að átta okkur á því hvað þetta þýðir, því eitt af fyrstu verkefnunum sem við fórum í við lok árs 2009 var að samþykkja ríkisreikning fyrir árið 2007. Ég skildi nú hvorki upp né niður í því hvers vegna við vorum að samþykkja ríkisreikning fyrir árið 2007 í lok árs 2009. Ég er hræddur um að þetta gengi ekki í fyrirtækjarekstri, þá væru stjórnendur fyrirtækisins ekki meðvitaðir um ástand rekstursins. Ég tel að það sama gildi um ríkissjóð.