140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

jafnréttismál.

[15:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Annaðhvort er mönnum alvara í þeim efnum að undirstrika mikilvægi jafnréttismála eða ekki. Þess vegna mun ég koma hingað aftur og aftur þangað til við fáum að vita um niðurstöðu, afstöðu og viðhorf hæstv. forsætisráðherra í þessum málum. Við vitum nú þegar að hún vildi ekki ná sáttum við brotaþola í þessu máli heldur var farið í mál. Mér finnst það miður því að það er alveg ljóst eftir lagabreytingu sem þingið stóð fyrir í þeirri niðurstöðu að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði bindandi til að undirstrika mikilvægi úrskurðar þeirrar nefndar. Þess vegna segi ég að það er þyngra en tárum taki að upplifa það að forsætisráðherra Íslands sem hefur gerst brotlegur við jafnréttislögin ætli að ljúka þessu máli fyrir dómstólum.

Gott og vel. Ég mun ekki fara gegn því að menn leiti réttar síns fyrir dómstólum, það er bara eðli og gangvirki réttarkerfisins og þess ríkis sem við köllum réttarríki, a.m.k. enn sem komið er. Engu að síður hefði ég talið (Forseti hringir.) það skipta miklu máli að forsætisráðherra hefði í þessu máli haft dug í sér til að klára málið með því að ná sáttum við brotaþola. Það var ekki gert (Forseti hringir.) og mér finnst það miður.