140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

staðfesting aðalskipulags.

45. mál
[16:03]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Annars vegar er hér rætt um aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hins vegar Húnavatnshrepps og Blönduóssbæjar þar sem um er að ræða sama málið í raun.

Fyrst varðandi Skagafjörð er því til að svara að í júní 2010 tilkynnti ráðuneytið Sveitarfélaginu Skagafirði þá niðurstöðu sína að fresta bæri staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem varðaði legu hringvegar 1 á 15 km kafla í Skagafirði, þ.e. þeim hluta aðalskipulagsins þar sem Vegagerðin og sveitarfélagið eru ekki sammála um legu veglínunnar, samanber 19. gr. skipulags- og byggingarlaga og 28. gr. vegalaga. Ráðuneytið taldi hins vegar rétt að staðfesta aðalskipulagið að öðru leyti þannig að það liggur fyrir að tilvísanir þess efnis að sveitarfélagið sé í vanda varðandi framkvæmdir á grundvelli aðalskipulags eru byggðar á misskilningi í besta falli. Þarna er um að ræða veglínuágreining. Hvað varðar hins vegar aðalskipulag Húnavatnshrepps og Blönduóssbæjar er þar um að ræða sama mál, þ.e. niðurstöðu sem varðar svokallaða Húnavallaleið, þar sem ráðuneytið tilkynnti bæði Húnavatnshreppi og svo Blönduóssbæ í maí í vor þá niðurstöðu að það bæri að fresta þeim hluta aðalskipulags Húnavatnshrepps annars vegar og Blönduóssbæjar hins vegar á því svæði þar sem ný veglína hringvegar um þessa leið liggur, en að öðru leyti yrði aðalskipulag Blönduóssbæjar samþykkt.

Í öllum framangreindum málum hefur niðurstaða ráðuneytisins verið sú að fresta beri skipulagi að hluta en að það verði staðfest að öðru leyti. Sveitarfélögunum hefur verið tilkynnt um að aðalskipulag þeirra verði staðfest strax og nýir skipulagsuppdrættir hafa borist ráðuneytinu sem gerir grein fyrir frestun aðalskipulags að hluta.

Í ákvæði 4.23 í skipulagsreglugerð kemur fram að auðkenna skuli þau svæði á skipulagsuppdrætti þar sem skipulagi er frestað og greina frá ástæðum þess í greinargerð. Ráðuneytið bíður þess enn að nýir uppdrættir berist frá sveitarfélögum til staðfestingar í samræmi við þá ákvörðun ráðuneytisins um frestun aðalskipulags að hluta, m.a. frá Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem sveitarfélagið hefur nú á sextánda mánuð verið með þessa niðurstöðu í sínum ranni.

Varðandi lagastoð þessarar ákvörðunar er það um hana að segja að í vegalögum segir að ákveða skuli legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Ef sveitarfélag fellst ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. Þetta er mikið umhugsunarefni fyrir sveitarfélögin vegna þess að þarna er um að ræða, eftir því sem ég skil best, mjög sérstakt lagaumhverfi þar sem þessi grein gengur framar skipulagslögum að því er varðar vegalögn.

Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Í vegalögunum er tekið fram að sveitarfélaginu sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillaga Vegagerðarinnar felur í sér. Í nefndaráliti um frumvarp til vegalaga segir um þetta atriði að leitast sé við að sveitarstjórn taki fullt tillit til sjónarmiða um umferðaröryggi þegar lega þjóðvega sé ákveðin þegar hún beitir skipulagsvaldi. Í því sambandi beri að nefna að gert sé ráð fyrir að tillögur Vegagerðarinnar að umferðaröryggi séu studdar viðurkenndu mati á umferðaröryggi.

Í raun og veru má segja að í þessum efnum sé samráði milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar ábótavant. Samkvæmt því má kalla það að því er varðar Skagafjörð formgalla á umræddri skipulagstillögu og kemur raunar fram í áliti Skipulagsstofnunar að viss óvissa ríki um það hvort færsla hringvegarins stuðli að auknu umferðaröryggi. Í umsögninni er rakin þessi óvissa og að formgalli sá valdi því að rétt sé að fresta þessari staðfestingu. Ég ákvað á grundvelli þessa að flýta afgreiðslunni að öðru leyti, en samkvæmt niðurstöðu minni og ráðuneytisins hefur þessu samráði ekki verið lokið, hvorki að því er varðar Skagafjörð né Blönduóssbæ og Húnavatnshrepp þannig að fyrir liggur að eina málefnalega niðurstaðan sem mér er stætt á að komast að er sú sem fyrir liggur, þ.e. að staðfesta skipulagið að hluta. Ég vænti þess að gera það hratt og örugglega þegar sveitarfélögin hafa skilað (Forseti hringir.) skipulagi sínu með þessum hætti.