140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu ómögulegt á þeim stutta tíma sem mér er úthlutaður til að flytja þessa ræðu að rekja allar þær tillögur sem hér eru birtar í heilli bók. Ég þarf þess vegna að reyna að velja úr. Ég ætla að byrja á að tala stuttlega um forsendurnar, efnahags- og skattamálin og vinnumarkaðsaðgerðirnar sem eru auðvitað nauðsynlegar til að allt hitt fáist þrifist. Síðan ætla ég að velja úr nokkrar atvinnugreinar og fara yfir tillögurnar í þeim efnum.

Í fyrsta lagi er byrjað á að rekja mikilvægi skattstefnunnar fyrir atvinnulífið. Við höfum alloft áður farið ítarlega yfir þetta, enda kemur á daginn aftur og aftur að það sem fyrirtæki líta helst til þegar þau meta hvort þau eigi að ráðast í fjárfestingu og ráða nýtt fólk til starfa eru skattamálin. Þess vegna er mjög mikilvægt að tillögum fylgi alltaf stefna í skattamálum og það er lagt fram allítarlega hér.

Jafnframt er þetta spurning um að laga umhverfið sem fyrirtækin búa við, það er að sjálfsögðu mjög erfitt að byggja upp í viðjum gjaldeyrishafta. Þess vegna er það ein af forsendunum að menn ráðist í úrbætur og afnemi gjaldeyrishöftin sem fyrst. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur um hvernig standa megi að því.

Svo eru það almennar vinnumarkaðsaðgerðir. Hér er til að mynda lagt til að gerð verði úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði. Töluvert hefur skort á það, eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins gengust reyndar við áðan í andsvörum. Við þær aðstæður þar sem atvinnuleysi í landinu er miklu meira en við eigum að venjast verðum við að grípa til ráðstafana til að forðast að atvinnuleysið festist í sessi og að við lendum í því sem sumar þjóðir, Evrópuþjóðir, hafa lent í, að fólk sé jafnvel atvinnulaust kynslóð fram af kynslóð, festist í atvinnuleysisgildru. Við þurfum því að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra sem missa vinnuna.

Ég verð í ljósi þess hversu tíminn er skammur að láta þetta nægja af yfirferð yfir forsendurnar en þær eru raktar ítarlega í tillögunum.

Ég ætla að nota það sem ég á eftir af tímanum til að ræða það sem kalla mætti atvinnugreinar framtíðarinnar, atvinnugreinar 21. aldarinnar, ég á þá við þær greinar sem eru í hvað örastri þróun. Þetta eru kaflar IV–VIII, þ.e. nýsköpun, hugverkaiðnaður, kvikmyndagerð og tónlist, ferðaþjónusta, og landbúnaður. Landbúnaður er nefnilega ein af greinum framtíðarinnar eins og ég mun útskýra á eftir.

Nýsköpun í atvinnulífinu hefur verið lengi til umræðu á Íslandi, en það hversu brýnt er að bæta þar úr og efla nýsköpun varð mjög áþreifanlegt með efnahagshruninu. Þess vegna eru lagðar til mjög afdráttarlausar tillögur um aðgerðir til að efla rannsóknir og nýsköpun. Stefnt er að því að fjármagn til kennslu í raun- og verkfræðigreinum í háskólum landsins verði aukið og jafnframt að stuðningur við rannsóknar- og þróunarstörf verði efldur m.a. með skattafsláttum vegna fjárfestingar í nýsköpunarverkefnum. Þá spyrja menn: Hvað kostar það? En þá er ekki verið að spyrja réttu spurningarinnar vegna þess að þetta er fjárfesting. Það er grundvallaratriði að menn líti á nýsköpun sem fjárfestingu, trúi því að það fjármagn sem sett er í slíkt skili meiri tekjum til lengri tíma lítið.

Það má líkja þessu við aðrar atvinnugreinar. Hvernig hefði atvinnulíf þróast á Íslandi ef menn hefðu til að mynda við upphaf togaraútgerðar hugsað sem svo að það væri svo dýrt að kaupa þessi stóru fínu skip, það mætti ekki setja pening í það því þau kostuðu svo miklu meira en árabátarnir? Hver hefði afleiðingin af því orðið? Hefði hún orðið sparnaður, auknar tekjur ríkisins, aukin velmegun? Að sjálfsögðu ekki. Menn þorðu að fjárfesta, trúðu því að fjárfesting í nýsköpun, sem var í sjávarútvegi í þessu tilviki, mundi skila auknum tekjum til lengri tíma litið. Við hljótum að trúa því að fjárfesting í þessum þróunargreinum skili okkur meiri tekjum til lengri tíma litið. En óttist menn að ekki séu til peningar til skamms tíma til að fjárfesta þá er einfaldast að líta til þess sem hefur þó sparast á undanförnum þremur árum, til að mynda í vaxtagreiðslum sem við erum ekki að borga af Icesave-kröfum Breta og Hollendinga, 40 milljarðar á ári. Þetta eru peningar sem áttu að fara út úr landinu í erlendri mynt. Það mætti þess vegna fjárfesta fyrir tvöfalda þá upphæð innan lands, peningar sem mundu ekki tapast heldur skapa enn meiri tekjur. Ef menn hefðu haft efni á því, auðveldlega, eins og sumir stjórnarliðar héldu fram aftur og aftur, að borga 40 milljarða út úr landinu í vexti, þá hljótum við að hafa efni á að fjárfesta í nýsköpun.

Kvikmyndagerð og tónlist er nefnt hérna sérstaklega og ekki að ástæðulausu vegna þess að þær greinar hafa sýnt það að þær eru svo sannarlega færar um að skapa ekki aðeins list heldur líka verðmæti á Íslandi. Það var nefnilega svo merkilegt með kvikmyndagerðina og niðurskurð þar að menn reiknuðu dæmið ekki til enda. Þetta tengist þeirri umræðu sem við erum alltaf að reyna að halda á lofti, mikilvægi þess að reikna heildaráhrif í útgjöldum ríkisins við fjárlagagerðina.

Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á, og það hefur verið gert, að framlög til kvikmyndagerðar skili sér margfalt til baka og ekki hvað síst í erlendri mynt, svoleiðis að niðurskurður þar er ekki til þess fallinn að spara fyrir ríkið, hann dregur þeim mun meira úr tekjunum. Og svona er þetta með svo fjölmargt. Þess vegna þurfum við alltaf að líta á heildarmyndina. Þegar menn koma og hafa áhyggjur af kostnaðinum verða þeir að líta á heildarmyndina og þeir verða að líta á langtímaáhrifin. Við verðum að þora að fjárfesta og það á líka við í ferðaþjónustunni.

Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög mikið, sérstaklega á undanförnum árum, en þar þarf að ráðast í heilmikla uppbyggingu og eins að efla kynningarstarf. Reyndar var ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin ákvað að leggja fjármagn í það, en við þurfum að gera ferðaþjónustuna fjölbreytilegri eins og aðrar atvinnugreinar og sérstaklega að láta hana ná yfir lengri tíma því að vandi ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur verið hversu árstíðabundin ferðaþjónustan er. Við leggjum til, og höfum gert undanfarin ár, ýmsar leiðir til þess. En eitt sem ég vil sérstaklega draga fram í því sambandi er mikilvægi þess að bæta hið manngerða umhverfi, bæta ásýnd til að mynda miðbæjarins í Reykjavík svo að það að fara til íslensku borgarinnar og bæjanna verði ekki síður áhugavert en að skoða íslenska náttúru. Það er ein besta leiðin til að fá ferðamenn til landsins á öðrum árstímum en á sumrin.

Í lokin er það grein 21. aldarinnar, eins og reyndar fyrri alda, en ekki hvað síst sérstaklega 21. aldarinnar, það er landbúnaðurinn. Fólki fjölgar svo gríðarlega hratt í heiminum, um næstum því 250 þús. manns á dag ef ég man rétt, það slagar hátt í íbúafjölda Íslands, að auka þarf verulega matvælaframleiðslu í heiminum. Það er jafnframt ljóst að nú er að verða grundvallarbreyting í matvælaframleiðslu. Allt frá árinu 1861 hefur þróunin nefnilega orðið sú að matvæli hafa orðið ódýrari og ódýrari. Það hefur orðið ódýrara að framleiða þau, tækninni hefur fleygt fram, orka varð bæði aðgengilegri og ódýrari og hinar ýmsu framfarir leiddu til mikillar framleiðsluaukningar. En nú horfir málið öðruvísi við. Á sama tíma og hin mikla fólksfjölgun á sér stað í heiminum og sérstaklega í borgum þar sem neyslan er með öðrum hætti en í sveitum þróunarlanda hefur skortur á landrými orðið sífellt meira vandamál, skortur á vatni fyrir landbúnað er sífellt meira vandamál, hærri kostnaður og meiri skortur á orku er líka vandamál og svo mætti áfram telja. Ákveðin stöðnun hefur orðið í framþróun í tækni í matvælaiðnaðinum og allt leiðir þetta til stighækkandi matvælaverðs eins og við höfum séð á allra síðustu árum. Þar eru tækifæri Íslands mikil, lands sem á gnægð vatns, næga orku, nægt landrými og stundar umhverfisvænan landbúnað. Landbúnaður er því ein af greinum 21. aldarinnar og mikilvægt að Íslendingar haldi áfram að efla þá grein.