140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

33. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Í sjálfu sér þarf ég ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Það hefur verið flutt tvisvar sinnum áður og var afgreitt úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á síðasta þingi eftir 1. umr., vísað til nefndarinnar að nýju eftir 2. umr. og þaðan var það síðan ekki afgreitt.

Ég vil einungis nefna það sem er megintilgangurinn með þessu lagafrumvarpi en það er að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagningu gegnsærri. Það má ætla að með þessari breytingu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Þá mun skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað lækka um allt að 400 millj. kr.

Eins og ég sagði hefur málið verið flutt áður og fengið mikla umfjöllun í viðeigandi þingnefnd og kallar þess vegna ekki á sérstakar skýringar nú við 1. umr. málsins.