140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég leyfi mér að vera þeirrar skoðunar að þingmenn eigi að hafa jafna stöðu á þinginu, líka að þessu leytinu. Sú hugmynd okkar félaga hv. þm. Þráins Bertelssonar hefur ekki fengið mikinn byr hér og ég er þess vegna ásamt meðflutningsmanni mínum, Valgerði Bjarnadóttur, reiðubúinn til að gera ákveðna málamiðlun og vita hvað hinn mikli launadómari þingmanna, kjararáð, hefur um þetta að segja. Eins og ég rakti komu tvær umsagnir frá mikilsverðu fólki, annars vegar frá kjararáðsliðum sem vita meira um þessi mál en jafnvel ég og félagi hv. þm. Þráinn Bertelsson, og hins vegar frá þingskapanefndinni. Ég tók eftir því þegar ég skoðaði nöfnin þar að þar er saman komið fólk með mjög mikla reynslu og þekkingu á álagsgreiðslum. Það fólk taldi að álagsgreiðslurnar væru eðlilegar eftir reynslu sinni og þekkingu á því sviði, en sagði líka að það væri kjararáðs og ætti að vera kjararáðs að úrskurða um þessi efni, eins og ég skildi það, enda stendur í lögunum um kjararáð að það eigi að fjalla um laun og starfskjör þingmanna.

Ég tel eðlilegast að hvað sem líður skoðunum mínum og hv. þingmanns, félaga míns, á þessu getum við náð samstöðu um að þingmenn séu ekki sjálfir að deila og drottna í þinginu og búa til elítur og paríur, heldur láti þá kjararáð um það erfiða verk. Sá kaleikur er þá frá okkur tekinn, þó að það sé kannski ekki stórmannlegur tillöguflutningur.