140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að vísa eingöngu til síðustu launalækkunar sem Alþingi stóð fyrir. Það var hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem fór fram með síðasta frumvarp að launalækkun þingmanna. Laun þingmanna voru með frumvarpi lækkuð fyrir fimm til sjö árum þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru í ríkisstjórn. Ég er að tala um að almennar reglur eigi að gilda í þingsal og hvort þingmanninum þyki eðlilegt að hægt sé að beita þeim popúlisma, já, í þinginu að þegar ríkisstjórn þarf jafnvel einhverja vinsældakosningu eða vinsældakönnun komi hún fram með lagafrumvarp og keyri það í gegnum þingið til að kippa launum þingmanna úr sambandi. Hvaða önnur starfsgrein mundi láta bjóða sér þetta?

Þegar hæstv. fjármálaráðherra kom fram með frumvarpið síðast voru ráðherrar, forsetinn og dómarar undir. Ég barðist mjög gegn því og benti á að það færi algjörlega gegn t.d. stjórnarskránni að hægt væri að lækka laun dómara með lagasetningu. Það var tekið út úr frumvarpinu.

Við ræðum lagaskrifstofu á eftir og það get ég sagt að ef svoleiðis apparat væri hér á landi hefði slíkt frumvarp aldrei komið fram. Það er bara þannig.

Launalækkun þingmanna var keyrð í gegnum þingið en hinum starfsgreinunum var hlíft því að, eins og ég segi, Alþingi má ekki grípa inn í þrígreininguna og dómstólar og dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum.

Þetta gerðist ekki bara eftir hrunið heldur áður, eins og ég sagði. Þá spyr ég á nýjan leik: Kemur þingmaðurinn til með að taka þátt í því í framtíðinni að styðja frumvarp til lækkunar á launum þingmanna þegar hún er svo afgerandi á móti því að þingmenn hafi sjálfir áhrif á laun sín til hækkunar?