140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, um þær áhyggjur sem hún lýsti af námsárangri drengja samkvæmt útkominni skýrslu þar sem það er dregið nokkuð afdráttarlaust fram að lestri sé áfátt, grundvallarnámsgreininni sjálfri, undirstöðu alls annars. Auðvitað hlýtur okkur að bregða við. Í tíð hennar sem menntamálaráðherra var kennaranámið eflt stórum. Það var bætt mjög verulega, lengt og eflt með ýmsum hætti og það mun skila sér inn í skólakerfið á næstu missirum. Þær breytingar áttu sér stað fyrir tveimur, þremur árum og munu koma inn í skólakerfið á næstu árum með betur menntuðum og hæfari kennurum og einstaklingsmiðaðri aðferðum. Við þurfum að leita allra leiða til að ná utan um þetta.

Á framhaldsskólastiginu er brottfallið mikið áhyggjuefni. Það hefur til dæmis verið dregið fram að annar hver 19 ára piltur á tilteknum landsvæðum er utan framhaldsskóla án þess að hafa lokið nokkru námi. Það er mikið áhyggjuefni og stórt vandamál. Ég held að ein af lausnunum á því sé að efla starfsnám og styttri námsbrautir mjög verulega þannig að fólk eigi alltaf greiða leið aftur inn í framhaldsskóla til að bæta við, ljúka stúdentsprófi, fara síðan upp í tækniskóla og háskóla o.s.frv. Ég held að unnið sé að réttum markmiðum eftir réttum aðferðum, en niðurstaða þessarar könnunar og margra annarra um lakan árangur á tilteknum sviðum færir okkur heim sanninn um að við gerum ekki nógu vel. Þó að margt sé mjög vel gert í menntakerfi okkar á öllum skólastigum alveg upp úr og niður úr er ýmislegt sem við þurfum að bæta. Það hefur blasað við um nokkuð margra ára skeið að árangur drengja og viðvera þeirra í skólum hefur heldur verið á fallanda fæti og við þurfum að bregðast við því með ýmsum hætti.

Ég held að þegar komið er upp í framhaldsskóla skipti miklu máli að efla starfsnámið, stytta námsbrautirnar og ýmislegt annað sem er verið að gera og var samþykkt í fyrravetur í þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) frá hv. þm. Skúla Helgasyni. Þetta er stór umræða sem við þurfum að halda áfram með.