140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra taldi að frumvarp mitt snerti grundvallaratriði. Ég lít svo á að um leið og lögum er breytt sé alltaf um breytingar á grundvallaratriðum að ræða því að annars kæmu ekki fram lagafrumvörp. Ráðherra sagði jafnframt að alltaf þyrftu að vera varnaglar í lögum. Ég er algjörlega ósammála því. Lög eiga að vera skýr og skiljanleg til að borgararnir viti að hverju þeir ganga. Og það sem snýr að lögum um ríkisborgararétt er nákvæmlega það sem ég legg til með frumvarpi mínu um að þessar valdheimildir fari frá þinginu. Það er ekki nógu skýrt að Alþingi hafi þær valdheimildir vegna þess að þá gildir ekki það sama um alla eins og ef þetta væri á einni hendi hjá ráðherra, hjá framkvæmdarvaldinu, því að það sama verður að gilda um alla varðandi gegnsæi, rökstuðning og annað. Svo er alls ekki eins og núgildandi lög eru upp byggð, því að með valdheimildum Alþingis er verið að veita undanþágur frá meginreglunni sem gengur í berhögg við það gegnsæi og jafnræðisreglu sem ríkisborgararéttur á einmitt að byggja á.

Því langar mig til að spyrja ráðherrann: Hver er skoðun hans á því að Alþingi missi þær valdheimildir að veita ríkisborgararétt tvisvar á ári, sem er raunverulega undanþága frá lögunum eins og ég fór yfir áðan? Það hefur nefnilega gerst í seinni tíð að sú undanþága sem Alþingi hefur í þessum lögum er að breytast í meginreglu, því að fjöldinn sem fær ríkisborgararétt í gegnum þingið er slíkur að það er nánast orðið óeðlilegt. Telur ráðherra að útlendingum sem þurfa að sækja slíka heimild til Alþingis muni þá ekki jafnframt fækka? (Forseti hringir.) Og loks náttúrlega þessi grundvallarspurning: Er ekki ráðherrann sammála því að Alþingi ætti að missa þessar valdheimildir?