140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður er svolítið hugsi eftir síðustu andsvör en ég er um leið fegin að heyra að fleiri en ég eru efasemdarmenn gagnvart þessu máli. Þar með er ekki sagt að þeir efasemdarmenn í málinu séu að gefast upp gagnvart því að hafa skynsamlega áfengisneyslu í landinu, síður en svo. En ég kem að því í ræðu minni á eftir að mér finnst þetta svolítið forræðishyggjulegt, mér kemur það kannski ekki á óvart. En mér finnst þetta ekki taka á hinum raunverulega vanda heldur frekar flækja málið en einfalda það sem maður hefði auðvitað frekar kosið. Þeir sem leyfa sér að hafa uppi efasemdir gagnvart svona forræðishyggju eru ekki á móti því að barist sé gegn áfengisbölinu, síður en svo.

Mér finnst líka miður að heyra að menn eigi að berjast gegn því og menn vilji sérstaklega fá fram minni neyslu í áfengi en það sé allt í lagi svo lengi sem það eru íslenskir aðilar sem eiga hlut að máli. Það er bara þannig. Þetta mun leiða til þess að neyslan minnkar af því að íslenskir aðilar fá ekki að vera í jafnmiklum mæli sýnilegir og hinir útlendu. Neyslan mun minnka á hinni íslensku framleiðslu.

Ég hef tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Fyrri spurningin er: Núna er verið að móta áfengisstefnu stjórnvalda. Hefði ekki verið í lófa lagið að bíða eftir að sú stefna lægi fyrir til að taka á málum heildstætt í staðinn fyrir að vera með einhvern bútasaum sem er algerlega misheppnaður að mínu mati? Hefði ekki verið í lófa lagið að bíða með það þar til áfengisstefna stjórnvalda í landinu liggur fyrir, sem mér skilst að verið sé að vinna að?

Síðari spurningin er: Ekkert samráð var haft að ráði við samningu frumvarpsins þegar það var lagt fram í fyrra. Hefur eitthvað verið gert í millitíðinni um aukið samstarf við þá sem málið varðar?