140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[17:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar aðeins að ræða um íslenska tungu og þó enn fremur örnefni. Ég treysti mér ekki til þess áðan vegna þess að ég er ekki kunnugur á vestanverðum Reykjanesskaga sé miðað við landakortið. Ég aflaði mér upplýsinga um þetta á netinu og þar rakst ég sem betur fer á ofurlitla frásögn eftir séra Jón Thorarensen frá Kotvogi sem fæddur var 1902 og skrifaði nokkrar bækur, ágætur maður. Í hann er þessi tilvitnun, með leyfi forseta:

„Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja [eða Útnesja]“ — það er mín viðbót — „sem var skýrt ákveðið alla tíð var þessi:

Innnes frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.

Suðurnes frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.“

Síðan segir að í lýsingu Jóns sem ritaði mikið um landshætti, líf fólks og atvinnuhætti á Suðurnesjum sem á bæði við Innnes og Útnes:

„[E]r tekinn af allur vafi hvar skiptingin var, en hún skipti miklu máli í daglegu tali fyrrum er menn voru greindir í Innnesjamenn og Útnesjamenn. Einnig var það almenn málvenja að fara á Innnesin eða á Útnesin.“

Ég hygg að ég hafi haft rétt fyrir mér. Ég ætla ekki að standa í miklum deilum við hv. þm. Árna Johnsen um þetta en ég vek athygli á því að hann er ekki fæddur og uppalinn þarna heldur þó að við höfum sjálfsagt komið þangað báðir. (ÁJ: ... í Garðinum.) Ég var í Garðinum í nokkrar vikur þegar ég var barn að aldri.

Enn verð ég svo að taka fram að Reykjanesið er að fornri venju tá syðst á Reykjanesskaganum og ef við ætlum að flytja Landhelgisgæsluna þangað þá verður svolítið þröngt um hana þar. Ég veit að málvenja í nútíma er önnur en ég tel að við eigum að halda okkur við það að Reykjanesið sé þar sem það er og Reykjanesskaginn þar sem hann er þannig að við eigum nokkra samræðu um þetta, ég og hv. þm. Árni Johnsen. Við höfum sameiginlegan áhuga á íslenskri tungu og menningu.