140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

áhafnir íslenskra fiskiskipa.

70. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp byggir á því að tekið verði aftur upp það fyrirkomulag sem var fram til 1991. Þá gátu sjómenn sem höfðu verið samfellt tvö ár á sjó, með skráðan siglingatíma, sótt nám í skipstjórnarfræðum fiskiskipa, sérstökum deildum sem voru settar á stofn á nokkrum stöðum á landinu, þeir gátu gert það í ljósi þess að þeir höfðu reynslu. Yfirleitt voru þetta ungir menn sem höfðu flosnað úr námi af ýmsum ástæðum, höfðu stofnað heimili o.s.frv., og vildu svo fá meiri réttindi og þetta eru skipstjórar landsins í dag. Þetta er kjarni skipstjóra landsins í dag, þessir menn sem fóru beint af sjónum í nám til að verða skipstjórar á fiskiskipum.

Nú þarf stúdentshúfuna og það er engin reynsla á bak við og það er allt í lagi að hafa það áfram en það þarf að taka aftur upp þetta gamla kerfi vegna þess að það er farið að fjara undan skipstjórnarstéttinni. Með því fyrirkomulagi sem nú er verða eftir 15 ár ekki til íslenskir skipstjórar á íslensk fiskiskip.

Þetta er frumvarpið. Þessi kennsla var á sínum tíma á Dalvík, Ísafirði, Hornafirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík og við höfum bætt Grindavík við því að þeir hafa áhuga á að taka þetta nám upp og reyndar getur hvaða skóli sem er gert það. Þetta er til þess að nýta reynsluna og þekkinguna. Þetta hefur reynst afbragðsvel fyrir flota Íslendinga og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.