140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við erum hérna að ræða framtíðina, bæði framtíð Íslands og Evrópu. Það er svoleiðis með framtíðina að hún er alltaf óráðin og það er eiginlega í eðli hennar. Það þýðir auðvitað ekki að við eigum ekki að setja okkur markmið og stefna að þeim. Það var ákveðið á Alþingi fyrir tveimur árum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það var sú stefna sem Alþingi tók. Það er það ferli sem við lögðum upp með og ég tel að hentugast sé að klára það ferli. Ég treysti þjóðinni alveg fyrir þeirri ákvörðun hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þjóðin mun aldrei samþykkja afsal á auðlindum eða að við seljum frá okkur fiskimiðin, en ýmsir stjórnmálamenn í gegnum tíðina hafa hins vegar ítrekað reynt hvort tveggja, bara þannig að vakin sé athygli á því.

En ég segi: Klárum þetta og treystum þjóðinni.

Hvað varðar tímasetninguna á þessu er mjög athyglisverð staða í Evrópu núna og við fylgjumst vel með því, vonandi öll. Miklar breytingar hafa orðið í heiminum öllum síðustu þrjú árin. Hér ríkir ákveðin heimskreppa og nú bara sjáum við hvernig málin þróast á vettvangi Evrópu og hérna heima og kjósum þegar samningur er klár. En þá kjósum við líka um aðild að ESB eins og það verður þá, hvernig sem það verður.

Það er ekki tímabært að segja til um það.

Ég held reyndar að tímasetningin sé betri núna. Við sóttum um á hnjánum en nú er ESB komið niður á annað hnéð og staðan því jafnari, en við verðum bara að sjá til hvernig málin þróast.