140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[14:58]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Auðvitað hafa sveitarfélögin sum hver notið góðs af aukaframlaginu á síðustu árum og eru nú upp á það komin. Í fyrstu var það notað til að mæta fólksfækkun í sveitarfélögunum en nú á síðari árum þeim mikla fjárhagsvanda sem blasir við í sumum þeirra eftir hrun.

Þegar menn tala um nauðsyn þess að bæta frekar í og mæta þeim sem eru úti á landi ætla ég ekki að gera lítið úr því en ég vil samt sem áður benda á að það er smáskammtalækning. Hinn stóri vandi og stóra myndin er sú að sveitarfélög á landinu eru of mörg og sum hver of fámenn til að geta staðið undir þeirri þjónustu sem þau þurfa að veita íbúum sínum. Þetta vita allir og þess vegna er að mínu mati nauðsynlegt að aðkoma ríkisvaldsins og jöfnunarsjóðsins í þessum efnum sé ekki skuldbindingarlaus af hálfu ríkisins og af hálfu sveitarfélaganna, þ.e. að með einhverjum hætti sé reynt að mæta vanda sveitarfélaganna til lengri tíma,. Það er ekki eðlilegt að 30, 40, 50% af tekjum sveitarfélaga komi úr jöfnunarsjóði eða að jafnvel 4, 5 eða 6% af tekjum þeirra komi frá aukaframlaginu.

Það þarf að huga að því sem bent hefur verið á, t.d. með reynslu Dana í huga og ef reynsla þeirra er yfirfærð á íslenskan veruleika, að það er hægt er að spara um 3–5 milljarða ísl. kr. með sameiningu sveitarfélaga. Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í fyrra held ég eða hittiðfyrra var bent á að ef menn tækju rekstur sveitarfélaganna eins og hann er hvað bestur og jöfnuðu það yfir allt landið væri að líkindum hægt að spara um 30 milljarða kr. í rekstri þeirra. Það eru upphæðir sem máli skipta og gætu verið íbúum sveitarfélaganna til hagsbóta.