140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara staðreynd mála að Sjálfstæðisflokkurinn var mjög klofinn í afstöðuna til AGS-samstarfsins á sínum tíma. Það þurfti að beita hörðu (Gripið fram í.) til að koma því plani í gegnum Sjálfstæðisflokkinn og fá samstöðu um að leita skyldi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vinna með honum. (TÞH: Hver bjó til planið?) Þetta er staðreynd mála. Eini flokkurinn sem alltaf hefur staðið að baki þessari áætlun og litið á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem grunnstoð í að tryggja alþjóðavætt og opið hagkerfi á Íslandi er Samfylkingin. (Gripið fram í.) Við höfum alltaf litið svo á að þessi áætlun væri grundvallarforsenda þess að við gætum endurreist efnahagslífið á Íslandi, (Gripið fram í.) tryggt aðgengi að lánsfé í öðrum löndum og aðgengi að mikilvægustu útflutningsmörkuðum okkar. Það er líka að koma á daginn að þetta var sá hornsteinn sem byggt var á síðan.