140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hana út í tvennt sem í henni kom fram. Annars vegar sagði hún að Vaðlaheiðargöng væri ekki að finna á vegáætlun.

(Forseti (ÁI): Forseti vill minna hv. þingmann á að ávarpa þingmenn eins og venja stendur til.)

Já, ég biðst afsökunar á þessu, virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi að Vaðlaheiðargöng væri ekki að finna á vegáætlun. Mig langar til að spyrja hvort hún hafi ekki átt við samgönguáætlun. Og í annan stað: Er það ekki rétt að Vaðlaheiðargöng hafi verið á samgönguáætlun sem sérstök framkvæmd frá því á vordögum árið 2007? Ég skildi hv. þingmann þannig að þetta væri ný framkvæmd og hana væri ekki að finna á vegáætlun. Ég held að hún hafi væntanlega átt við samgönguáætlun.

Ég hef ekki tíma til að spyrja seinni spurningarinnar en ég kem að henni á eftir.