140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að einhverjir lífeyrissjóðir hafa gripið til skerðinga og það er þeim í sjálfsvald sett að sjálfsögðu í hvaða mæli þeir nota sér það svigrúm sem þeir þó hafa tímabundið til að gera upp meiri halla en áður var heimilt í von um að afkoma þeirra batni síðan og þeir rétti sig af. Aðrir hafa nýtt sér svigrúmið í einhverjum mæli þannig að það er að nokkru leyti í sjálfsvaldi hverrar stjórnar hvernig með það er farið.

Varðandi endurskoðun lífeyrismálanna og þess stóra verkefnis sem við erum þar með í höndunum er það sömuleiðis rétt að strax við gerð margfrægs stöðugleikasáttmála var mikið fjallað um þau mál og vinna sett af stað, síðan hnykkt á því aftur í tengslum við gerð kjarasamninga nú á síðasta vori. Þessu tengjast að sjálfsögðu áform aðila almenna vinnumarkaðarins um að byggja upp réttindin í því kerfi í áföngum, aðallega á árunum eftir gildistíma núverandi kjarasamninga og fram til 2020 þannig að réttindaávinnslan í því kerfi nálgist það sem nú er í opinberu sjóðunum hjá ríki og sveitarfélögum. Það tengist þeirri heildarhugsun að réttindin þróist saman í átt að tiltölulega einsleitu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn með svipaðri réttindaávinnslu og að sjálfsögðu í sjálfbæru kerfi sem standi undir réttindaávinnslunni með iðgjöldum.

Því tengist líka vinna, sem er í sérstakri nefnd, sem er milli ríkisins og stéttarfélaga opinberra starfsmanna um að skoða málefni LSR sérstaklega og reyna að ná líka landi þar um hvernig tekist verði á við að rétta af A-deildina og gera það kerfi betur sjálfbært til frambúðar. Hallinn þar er að vísu ekki tiltakanlegur og það er ekki stórt í heildarsamhenginu að ná utan um það. Menn mundu svo einnig (Forseti hringir.) í því starfi stilla upp áætlun um hvernig tekist yrði á við fortíðarvandann í B-deildinni.