140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ríkisábyrgðir á bankainnstæðum.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það væri fróðlegt að vita hvað hv. þingmaður leggur sjálfur til í tilvikum sem þessum. Áttu innstæðueigendur í Sparisjóði Keflavíkur að fá aðra meðhöndlun en aðrir? (Gripið fram í.) Kom eitthvað annað til greina en að hafa samræmi í þessari framkvæmd þannig að það væri ekki spurning um það hvort menn væru svo heppnir, eða óheppnir eftir atvikum, að vera með viðskipti i sparisjóði í staðinn fyrir banka, hvort þeirra fjármálastofnun fór á hliðina í október 2008, á útmánuðum 2009 eða útmánuðum 2010?

Auðvitað gengur slíkt ekki og lagagrunnurinn er skýr, hann er í neyðarlögunum. Það er á þeim grundvelli sem Fjármálaeftirlitið beitir heimildum sínum og eftir atvikum þeim öðrum sem eru almenns eðlis. Yfirlýsingin er fyrst og fremst tryggð í framkvæmdinni, að það sé alltaf og í öllum tilvikum leitað leiða sem duga til þess að koma innstæðum í skjól og að þær tapist ekki, að allir hafi aðgang að fjármunum sínum sem eru bundnir í innlánum í bönkum eða sparisjóðum ef illa fer. Það hefur tekist (Forseti hringir.) fram að þessu og vonandi fækkar nú þeim tilvikum þar sem á þetta reynir.