140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

gjaldeyrishöft.

[15:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra að það eigi að móta hér peningamálastefnu með krónunni. Þetta finnst mér vera mikilvæg yfirlýsing. Það breytir hins vegar ekki því að í þeim texta sem er í raun og veru kynntur sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er talað um að íslensku krónunni muni fylgja varanleg gjaldeyrishöft. Við þekkjum að lagðar hafa verið fram áætlanir um að við förum út úr gjaldeyrishöftunum. Það var tekist á um það núna í september hversu hratt væri raunhæft að gera það. Ég hef hins vegar ekki orðið var við annað en að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið gert ráð fyrir því að við ætluðum að stefna út úr þessum gjaldeyrishöftum. Hér er hins vegar orðalagið allt öðruvísi, hér segir alveg skýrt, og það þarf í rauninni ekki hæstv. fjármálaráðherra til að túlka það, að sjálfstæður gjaldmiðill verði í höftum framvegis. Það er heilmikil stefna sem þarna er boðuð. (Forseti hringir.) Mér heyrist hins vegar hæstv. fjármálaráðherra tala sig svolítið frá þessu og reyna að túlka þetta með öðrum hætti þannig að ekki eigi að skilja þennan texta bókstaflega og þá verður maður auðvitað líka að lesa þessa (Forseti hringir.) nýju efnahagsstefnu með öðrum gleraugum en hingað til.