140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Þjóðhagsstofa.

76. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alls ekki. Ég held að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir séum einmitt mjög sammála hvað þetta varðar. Það er okkar hlutverk að hlusta á ólík sjónarmið, hlusta á ólíka hagsmuni, en á endanum þurfum við að ýta á takkann og taka ákvörðun út frá því sem við teljum að sé best fyrir þjóðina. Hins vegar skiptir máli að fá fjölbreytt sjónarmið, Ísland er mjög einsleitt samfélag. Ef við horfum bara á þá nemendur sem verið er að mennta í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og Bifröst í t.d. viðskiptafræði, hvað þá hagfræði, þá er þetta mjög lítill hópur og fáir eru t.d. með doktorsgráðu í þessum fögum. Ég er raunar að segja að það skiptir máli fyrir okkur að fá fjölbreyttari sjónarmið þannig að við getum kannski aðeins ýtt við ef við erum alveg búin að grafa okkur í skotgrafirnar, festa okkur í einhverju sem við teljum að sé alveg augljóst, skiljum ekki af hverju aðrir sjái ekki þau sjónarmið og þau markmið sem við teljum vera fullkomlega augljós.

Þess vegna legg ég áherslu á þetta og líka vegna þess að fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands vinna mjög svipaða vinnu og verið er að leggja til í þessu frumvarpi að Þjóðhagsstofa vinni. Ég held að það gæti verið mjög gott fyrir framkvæmdarvaldið að fá aðgang að þeim gögnum og þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofa tæki saman og þar væri þetta sjálfstæði sem við sjáum í vinnu Ríkisendurskoðunar, en það að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi gerir það að verkum að hún getur verið mun sjálfstæðari gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sama á náttúrlega við um umboðsmann Alþingis, sem er alveg sérkapítuli út af fyrir sig og virðist að mörgu leyti kannski vera orðinn eini farvegurinn fyrir fólk til að fá aðstoð miðað við hvernig álagið hefur verið þar. En það er annað mál og við tökum það seinna.