140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þýðing skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

194. mál
[19:13]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir örlítilli tillögu til þingsályktunar um þýðingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku. Ég er hér 1. flutningsmaður en auk mín eru Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Eygló Harðardóttir, þingmenn, öll meðflutningsmenn.

Tillagan er einföld og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að láta þýða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.“

Ég lagði þessa tillögu fram á síðasta þingi en hún komst ekki til umræðu og ég vildi því gera aðra tilraun núna. Rannsóknarnefnd Alþingis þarf ekki að kynna fyrir þingmönnum. Hún rannsakaði aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og skilaði skýrslu 12. apríl 2010. Í nefndinni sátu þrír valinkunnir einstaklingar, Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson, sem gegnir stöðu umboðsmanns Alþingis, og Sigríður Benediktsdóttir, sem er kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Ég held að við getum öll verið sammála um að þeim tókst ákaflega vel upp.

Útgáfa skýrslunnar markaði tímamót í endurreisn Íslands og hún geymir vandaða og nákvæma frásögn af þeim atburðum sem leiddu til hruns íslenska bankakerfisins og góða greiningu á íslensku viðskiptalífi. Hún var gefin út í níu bindum og seldist ákaflega vel. Hún hefur einnig verið aðgengileg á vef Alþingis án endurgjalds í pdf-formi og þar er einnig að finna ítarefni sem fylgir ekki prentuðu útgáfunni.

Skýrslan hefur ekki verið þýdd á nein tungumál í heild, en á vef þingsins er þó að finna enska þýðingu á hluta hennar. Ég hef ekki lesið þá þýðingu frá orði til orðs en ég óttast að það séu einhverjir vel valdir punktar sem segja kannski ekki alla söguna, en við sem erum flutningsmenn tillögunnar teljum afar brýnt að skýrslan verði þýdd í heild sinni á ensku sem er það mál sem kannski flestir í viðskiptalöndum okkar og heimshluta skilja, enda varðar efni hennar ekki einvörðungu þá sem eru læsir á íslensku.

Ég held að við eigum að vera stolt af þessari skýrslu, hún er vel unnin og hún er góð. Hún sýnir ákveðið hugrekki sem þarf til að fara í svona vinnu og sjálfsgagnrýni. Svo kemur hún líka miklu fleirum við en okkur. Í fyrsta lagi varðar hún miklu fleiri þátttakendur, og fórnarlömb íslenska bankahrunsins voru miklu fleiri en Íslendingar. Þeir eiga rétt á að vita hvað gerðist hérna.

Það er líka heimskreppa og svipað ástand og var hér og við erum að horfa upp á það gerast víðar í heiminum, að það er einhver bóla, fasteignabóla og bankabóla, og menn ganga kannski óvarlega um fjármálafyrirtæki. Eftirlitsstofnanir hafa slakað á taumnum og stjórnmálamenn hafa misst völdin til viðskiptalífsins. Þetta sjáum við vera að gerast annars staðar líka og ég held að fleiri geti lært af þessari skýrslu en við Íslendingar. Ég hef fundið að fólk hefur verið hálfspéhrætt eða feimið við að þýða þetta, að öll skömm okkar væri aðgengileg öðrum þjóðum. En ég held að við þurfum ekki að óttast það. Við höfum sýnt ákveðið hugrekki með því að láta gera þetta og við eigum að vera stolt af þessari skýrslu og ég vil sjá hana koma út á fleiri tungumálum. Reyndar tel ég að okkur beri siðferðisleg skylda til þess.