140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að gera þá athugasemd við stjórn hæstv. forseta á þessum fundi að hér fara menn ítrekað í efnislega umræðu um mál sem er á dagskrá að lokinni atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar og afbrigði. Mér þætti við hæfi að hv. þingmenn gæfu hæstv. forseta tóm til að ljúka þeirri afgreiðslu og færu síðan í að ræða málin.

Það undrar mig líka að það er eins og menn séu hér fæddir í gær og séu fyrst núna að koma að þessum málum, Byr og Sparisjóði Keflavíkur. Ég man þá tíð að ég var formaður í hv. viðskiptanefnd þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram einar 14 spurningar viðvíkjandi þessum málum og það var held ég í sumar (Gripið fram í.) að hann fékk þau svör á tveimur fundum sem við vorum mörg viðstödd á. Ég varpaði til hans 15. spurningunni opinberlega. Henni hefur hins vegar ekki verið svarað.