140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Viðlagatrygging Íslands.

210. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Við erum með ofanflóðasjóð til að taka á ákveðnum áföllum sem koma að ofan. Við erum ekki með slíkan sjóð þegar við upplifum tjón sem verður af völdum náttúruhamfara, til að mynda í hvert einasta skipti sem það rignir duglega undir Eyjafjöllum. Þá verður tjón vegna þess að það kemur verulegt hlaup í árnar og allir skurðir fyllast. Þeir eru sannarlega mannvirki sem hafa hingað til ekki verið tryggð af Viðlagatryggingu og held ég að engum hafi dottið í hug að þyrfti að tryggja. Sama má segja varðandi túnrækt sem í liggja veruleg verðmæti og fleira mætti nefna, laxveiðiár fyllast af aur. Ég held að við verðum að velta fyrir okkur af hverju við erum með ofanflóðasjóð en ekki einhvern sjóð sem tekur við annars konar flóðum. Það eru til dæmis sjóvarnir við Vík í Mýrdal þar sem sveitarfélagið þarf að borga ákveðna prósentu, nokkuð háa, til að búa til flóðgarð til að verjast flóði sem komið gæti þar af völdum náttúruhamfara, til dæmis við Kötlugos. Við búum í landi þar sem náttúruhamfarir ganga yfir og valda tjóni hjá fólki. Yfirvöld á hverjum tíma lýsa því yfir, hvort sem það verður bankahrun eða eldgos eða eitthvað annað, að almenningur eigi að bíða eins lítið tjón af því og hægt er.

Þá held ég að skoða þurfi þann þátt í heild sinni hvort ekki sé hægt að fara með einhverja aðra deild í Viðlagatryggingu. Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvaða hlutir standa þar fyrir utan. Þegar yfirvöld gefa yfirlýsingar um að reynt verði að haga því þannig að fólk muni bíða eins lítið tjón af völdum hamfara og hægt er verður líka að (Forseti hringir.) vera einhver innstæða fyrir þeim yfirlýsingum.