140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar sömuleiðis fyrir ágætt samstarf í fjárlaganefnd en mig langar til að spyrja hana sérstaklega út í niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu. Ég hef verið afar ósáttur við að ekki skyldi hafa verið gengið lengra til að bæta þeim heilbrigðisstofnunum skaðann sem orðið hafa fyrir miklum niðurskurði á síðustu tveimur árum.

Verið er að gerbylta kerfinu og er það gert í gegnum fjárlagafrumvarpið. Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar út í ummæli í áliti meiri hluta velferðarnefndar þar sem meiri hlutinn, samflokksmenn og þingmenn í stjórninni, gagnrýna þetta mjög harðlega. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til langs tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma hún á að starfa. Þar þarf til dæmis að skoða staðsetningu, samvinnu, sameiningar stofnana eða eininga og skilgreina starfsemina á hverjum stað með það að markmiði að hún sé fagleg, góð og hagkvæm. Þannig ættu allir aðilar að vita til hvers er ætlast af þeim faglega og fjárhagslega og geta lagað starfsemi sína að þeim römmum sem settir eru.“

Þetta eru stór og mikil orð frá meiri hluta þeirrar nefndar sem hefur faglega umsjón með þessum málaflokki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er hún sammála því sem þarna kemur fram? Af hverju var ekki farið að þeim tilmælum sem fram koma?