140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að taka til máls í 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Umræðan hefur staðið lengi og margar ræður hafa verið fluttar. Ég hef reynt að fylgjast með þeim allflestum og ég held ég geti sagt það frá mínu sjónarmiði að almennt þykir mér að umræðan hafi verið málefnaleg og uppbyggileg þó að skoðanir séu vitaskuld skiptar á fjölmörgum þáttum í fjárlagafrumvarpinu, á breytingartillögum sem liggja fyrir og á efnahagsmálum í landinu almennt.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur farið ágætlega yfir heildarmyndina og þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar, sem ég á aðild að, leggur fyrir við þessa 2. umr., ég ætla ekki að dvelja við það frekar. Mig langar til að fjalla meira almennt um stöðu efnahagsmála hér á landi og það hvernig tekist hefur fyrir okkur Íslendinga að vinna okkur út úr þeirri kreppu og þeim áföllum sem við urðum fyrir á haustmánuðum 2008.

Ég sagði hér að ég teldi að umræðan hefði að mestu leyti verið málefnaleg þó að sjálfsögðu séu einhver frávik frá því frá mínum bæjardyrum séð og ýmislegt hafi verið látið falla sem ég er ósammála — vitaskuld er það líka þannig að þó maður telji umræðuna málefnalega getur maður verið ósammála því sem sagt er eins og eðlilegt er.

Mig langar að fara aðeins yfir stöðu efnahagsmála almennt og ætla þá að byrja á að rifja það upp hver staðan var varðandi afkomu ríkissjóðs í kjölfar efnahagshrunsins. Ég tel að þar hafi náðst gríðarlegur árangur og viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs á mjög skömmum tíma — viðsnúningur sem sýnir að hallinn á ríkissjóði árið 2012 gæti orðið 30 milljarðar eða þar um bil þegar við horfum á það að hallinn fór í 215 milljarða þegar mest var. Bara þær tvær tölur sýna svart á hvítu gríðarlegan viðsnúning í rekstri og afkomu ríkissjóðs, fram hjá því verður ekkert horft. Menn geta haft þau sjónarmið og fært rök fyrir því máli að kannski hefði mátt gera betur, kannski hefði mátt ná meiri árangri með einhverjum öðrum leiðum, um það má deila, það má takast á um það. En því verður ekki á móti mælt að verulegur viðsnúningur hefur orðið. Sá viðsnúningur er vitaskuld forsenda þess að okkur takist á ná jafnvægi í efnahagslífi okkar almennt séð og hann er forsenda þess að við getum haldið hér áfram öflugum og sterkum innviðum í samfélagi okkar, ekki síst í velferðarkerfinu.

Í nýrri þjóðhagsspá, sem kynnt var fyrir fáum dögum, frá Hagstofunni kemur fram að vöxtur landsframleiðslu á árinu 2011 er 2,6% og spáir Hagstofan 2,4% hagvexti á árinu 2012. Ég tel að það séu mjög ánægjuleg tíðindi eftir þann mikla samdrátt sem varð í efnahagsstarfseminni, einkum og sér í lagi á árunum 2008 og 2009, þegar verg landsframleiðsla dróst saman um tæplega 10%. Nú erum við hins vegar, tveimur árum síðar, farin að horfa upp á vöxt.

Á árinu 2012 er sem sagt gert ráð fyrir hagvexti sem nemur 2,4%, aðallega vegna aukningar á einkaneyslu um 3% og aukningar fjárfestingar um 16,3%. Síðan er gert ráð fyrir því í spá Hagstofunnar að eftir 2013 verði vöxtur landsframleiðslu og einkaneyslu nærri 3% öll árin. Þetta er tvímælalaust árangur sem við getum heldur ekki horft fram hjá.

Í þjóðhagsspánni kemur einnig fram að á seinni hluta ársins 2011 hafi gengi krónunnar styrkst nokkuð og dregið hefur úr vexti verðbólgunnar sem fór aðeins af stað eftir gerð kjarasamninga fyrr á árinu. Nú er gert ráð fyrir að meðaltalsverðlag hækki um 4,1% 2011, 4,2% árið 2012, en nálgist eftir það verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Ég ætla að fara hér aðeins yfir í atvinnuástandið. Það er vissulega rétt að atvinnuleysi er eitt stærsta viðfangsefnið í stjórn efnahagsmála um þessar mundir. Atvinnuleysisstigið hér á landi er hátt, að minnsta kosti á íslenskan mælikvarða. Þó að það sé ekki hátt í samanburði við ýmis önnur lönd í kringum okkur erum við Íslendingar ekki vanir miklu atvinnuleysi og við kunnum því illa. Í kjölfar efnahagshrunsins jókst atvinnuleysi mjög mikið og varð 8,1% ár árinu 2010, nær óbreytt á árinu 2009, en verður líklega nærri 7,4% árið 2011 samkvæmt þjóðhagsspánni. Hér verð ég að gera athugasemd við ummæli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan um atvinnuástandið en hún sagði að atvinnuleysi mundi aukast úr 6% í 6,4% á næsta ári. Þetta er misskilningur. Þetta er mislestur á þjóðhagsspánni. Hún blandar saman viðbótarfjárveitingu í Atvinnuleysistryggingasjóð í breytingartillögum meiri hlutans, vegna þess að gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi verði 6,4% en ekki 6% eins og spáin gerði ráð fyrir — fyrri spá — en atvinnuleysið er að fara úr 7,4% árið 2011 í 6,4% á árinu 2012 samkvæmt spá Hagstofunnar. Það er jákvæð þróun. Gert er ráð fyrir því að á árinu 2013 fari atvinnuleysið niður fyrir 6% í 5,8%. Þetta er að sjálfsögðu jákvæð þróun. Þetta er meðal annars vegna þess að ný störf eru að verða til á vinnumarkaði.

Þess vegna þykir mér að stór orð um að ekkert sé gert, það sé fullkomin stöðnun, það sé ekkert að gerast í atvinnumálum — mér þykja þau dálítið stór miðað við þær staðreyndir sem liggja fyrir. Menn geta vel komið hér og sagt: Við mundum vilja gera þetta eða eitthvað annað og það mundi hugsanlega leiða til þess að störfum mundi fjölga meira. Það má vel fara út í slíkar umræður og færa rök fyrir máli sínu í því efni. En það er ekki sanngjarnt að halda því fram að hér sé fullkomin stöðnun og það sé ekkert að gerast, því að öll teikn benda til hins gagnstæða. Það er ekki tilviljun að erlend matsfyrirtæki, erlendir sérfræðingar í efnahagsmálum og hagfræði, bæði þeir sem hingað hafa komið og þeir sem hafa skrifað í erlend tímarit og blöð um þessi mál, benda á ótrúlegan árangur í efnahagsmálum Íslendinga á skömmum tíma. Mér finnst mikilvægt að hafa þetta í huga og halda til haga í þessari umræðu.

Hagstofan greinir frá því að atvinnuvegafjárfesting hafi nokkurn veginn staðið í stað á árinu 2010 eftir þriggja ára stórfelldan samdrátt í kjölfar hrunsins en hún er nú talin vaxa um 16,3% árið 2011 og um 19% árið 2012. Það er líka sagt að á þessu ári og næsta sé reiknað með talsverðum vexti í allri fjárfestingu annarri en opinberri. Þannig að það er einkafjárfestingin, það er atvinnuvegafjárfestingin sem er að aukast. Er það vegna þess að það sé stöðnun? Eða vegna þess að ekkert sé að gera? Nei, auðvitað er það ekki þannig. Það er ýmislegt að gerast sem betur fer og þrátt fyrir allt. Þannig að enn á ný eru hér skýr dæmi um að við Íslendingar séum á réttri leið í hagstjórn okkar og efnahagsmálum.

Það er líka fróðlegt að skoða umfjöllun Hagstofunnar um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og fasteignamarkaði. Þar kemur meðal annars fram að mikil aukning hefur orðið í fasteignaviðskiptum á árinu 2011 og það stefni í að velta og fjöldi kaupsamninga verði um það bil 55% meiri árið 2011 en 2010. Þetta er að sjálfsögðu teikn um aukna veltu og aukin umsvif á þessum markaði og ber að sjálfsögðu líka vott um kaupmáttaraukningu.

Ég fæ því ekki betur séð, herra forseti, en að mjög margt jákvætt sé að gerast í íslensku efnahags- og atvinnulífi um þessar mundir, við séum á réttri leið, við séum að rétta úr kútnum mun hraðar en flestir gerðu ráð fyrir og þorðu að spá þegar áfallið dundi hér yfir haustið 2008. Og sem betur fer.

Ég fagna því líka að kjarasamningar hafi náðst á þessu ári sem tryggja kaupmáttaraukningu. Þeir hafa vissulega orðið dýrari en menn reiknuðu með eða voru að spá fyrir um, sérstaklega vegna þess að þeir voru frekar framhlaðnir eins og kallað er á þessu „jargoni“. Engu að síður tryggja þeir kaupmáttaraukningu sem þýðir að sjálfsögðu bætta afkomu heimilanna í landinu. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að flestir kjarasamningar eru til langs tíma, eða til ársins 2014, sem skapar stöðugleika á vinnumarkaði sem er líka mikilvægt fyrir efnahagsstjórnina í landinu. Ég verð að lýsa yfir ánægju með það.

Ég ætla líka að nefna stýrivextina, vaxtastigið í landinu. Á haustmánuðum 2008 og fram á ársbyrjun 2009 hækkuðu vextir og voru komnir yfir 18%, stýrivextir Seðlabankans. Nú eru þeir á milli 4 og 5%, hafa aðeins farið upp að undanförnu þar sem Seðlabankinn hefur talið nauðsynlegt að hækka stýrivextina um 0,25% tvisvar, úr 4,25 í 4,75%, aðallega vegna þess að verðbólgan hefur vaxið sérstaklega um mitt árið, en eftir sem áður eru þeir núna margfalt lægri en þeir fóru hæst, þannig að þar höfum við líka séð jákvæða þróun.

Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að þegar á heildina er litið séum við Íslendingar í jákvæðum og góðum málum með ríkisbúskap okkar. Í þessari umræðu hefur verið drepið á ýmis atriði í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum og því haldið fram að ekki sé gert nóg hér og ekki nóg þar. Auðvitað getum við verið sammála um að ákjósanlegt væri að geta gert meira, einkum og sér í lagi í velferðarkerfinu og menntakerfinu en við erum að gera en það mundi óhjákvæmilega líka hafa áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs. Að sjálfsögðu verða öll ábyrg stjórnvöld, ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna, að horfa gaumgæfilega í hverja krónu. Við teljum að við séum að gera það.

Með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur hér fram er reynt að nýta það svigrúm sem meiri hluti fjárlaganefndar taldi að væri til staðar til þess einkum og sér í lagi að draga úr niðurskurðarkröfum í heilbrigðiskerfinu. Ég held að í sjálfu sér hafi allir verið sammála um að það ætti að reyna að gera. Ég hef ekki heyrt mótmæli við því í sjálfu sér þó það séu hugmyndir frá ýmsum um að gera meira í þá veru. Þá verða menn, eins og ég segi, líka að horfa á niðurstöðuna, jöfnuðinn í ríkisfjármálum og hvernig hann fer. Það er kvartað yfir því í öðru orðinu að ekki sé verið að ná þeim jöfnuði eins hratt og var í upphaflegri áætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — það var að vísu gerð breyting á því og það tímabil lengt um eitt ár — en á hinn bóginn er kvartað yfir því að ekki séu nógu miklar fjárveitingar í þennan og hinn málaflokkinn. Þetta fer ekki alveg saman. Þetta kannski hljómar ágætlega í ræðu hér í ræðustól á Alþingi, en raunveruleikinn er sá að allt verður þetta að hanga einhvern veginn saman.

Það er gríðarlega þýðingarmikið fyrir okkur að ná sem fyrst jöfnuði í ríkisfjármálum þannig að við getum farið að greiða niður skuldir og draga þannig úr vaxtagjöldum ríkissjóðs, því að þau eru há, þau eru mikil. Við hljótum öll að vera sammála um að mikilvægt er að ná þeim niður sem fyrst. Það eru þau sem gera okkur erfitt fyrir að leggja meira fjármagn í þau margvíslegu verkefni sem við gjarnan mundum vilja leggja fjármuni í, bæði í rekstur opinberrar þjónustu, velferðarþjónustunnar, menntakerfisins, en líka í opinbera fjárfestingu. Það kemur fram í þjóðhagsspánni að vöxturinn í fjárfestingunni er aðallega aukning í atvinnuvegafjárfestingunni, ekki í opinberu fjárfestingunni.

Þannig að hér er samhengi í hlutunum sem við verðum að hafa í huga, einkum og sér í lagi þeir sem tilheyra stjórnarliðinu og ætla sér að bera ábyrgð á þessari efnahagsstefnu og vilja láta dæmið ganga upp þannig. En að sjálfsögðu verður maður að gera þá kröfu líka til stjórnarandstöðunnar að hún sýni ábyrgð. Ég sé að með breytingartillögum frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er reynt að gera hvort tveggja, leggja til auknar fjárveitingar á ýmsum stöðum en draga úr fjárveitingum annars staðar, það finnst mér virðingarvert, þó að við getum síðan haft ýmsar skoðanir á því hvort við séum sammála þeirri áherslu sem þar birtist. Það er virðingarvert en ekki er hægt að segja það um allar breytingartillögur sem hafa komið hér fram við þessa umræðu.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það er búið að tala hér heilmikið og fara rækilega yfir breytingartillögur meiri hlutans. Ég ætlaði mér ekki að fara inn á það. Ég vildi aðeins draga hér fram nokkur atriði úr þjóðhagsspá Hagstofunnar og benda á þann árangur sem við Íslendingar erum þrátt fyrir allt að ná í efnahagsmálum og ríkisbúskap þjóðarinnar.