140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[06:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum við lok 2. umr. um fjárlögin fyrir árið 2012 og mig langar að halda aðeins áfram þar sem orðaskiptum okkar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar lauk áðan.

Hann kom inn á það í ræðu sinni og andsvörum, og ég deili þeim áhyggjum með honum, að öll teikn væru á lofti um að vaxtastig geti farið hækkandi og því er gríðarlega mikilvægt að við náum að koma í veg fyrir fjárlagahallann og gera rekstur ríkisins sjálfbæran. Það er gríðarlega mikilvægt.

Á undanförnum tveimur árum hefur það hjálpað okkur gríðarlega mikið í því að ná tökum á ríkisfjármálunum að vextir hafa verið mjög lágir í heiminum. Við erum búin að færa rúma 20 milljarða á síðustu tveimur árum til baka vegna þess að vaxtagjöldin voru ofáætluð í útgjöldum ríkisins. Það er fagnaðarefni en því miður eru teikn á lofti um að vextir gætu farið hækkandi þannig að þessar tölur gætu orðið mjög háar, eins og þær eru reyndar, þannig að mjög mikilvægt er að við náum tökum á ríkisfjármálunum.

Ég fór í fyrri ræðu minni í dag aðallega yfir það sem ég tel að þurfi að breytast í gerð og framkvæmd fjárlaga, þ.e. að við séum ekki að samþykkja fjárlög fyrir árið 2012 og á næsta kjörtímabili verði samþykkt svokölluð lokafjárlög 2012, tveimur árum eftir að fjárlög eru samþykkt eins og er að gerast núna. Nú munum við væntanlega á næsta ári, eða í janúar 2012, fara að fjalla um frumvarp til lokafjárlaga árið 2010. Það er gríðarlega mikilvægt að mínu viti að tekin verði sú ákvörðun að þær stofnanir sem eru á fjárlögum fari eftir þeim en ekki þannig að sumar gangi lausar og þurfi ekki að fara eftir fjárlögum og hafi sérstöðu vegna þess að þær hafi markaðar tekjur eða sértekjur. Ég tel mjög mikilvægt að menn ræði þetta því að það er ekki mjög flókið að breyta þessu en það er mikilvægt að það verði gert.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkur atriði. Okkur greinir á um þá pólitísku stefnu hvernig beri að loka fjárlagagatinu og koma rekstri ríkissjóðs í lag. Það er náttúrlega efnahagsstefnan sem okkur greinir á um. Það er hægt að fara þá leið sem ríkisstjórnin er á, hækka skattana, allt mögulegt og ómögulegt, færa til tekjustofna frá sveitarfélögum til ríkisins eða fara að byggja upp innviðina með markvissari hætti og fara í atvinnuuppbyggingu eins og þingsályktunartillaga okkar sjálfstæðismanna gengur út á. Það þarf að snúa við á þessari braut því að að mínu viti munum við ekki ná að loka gatinu endanlega ef við höldum áfram á þessari leið.

Síðan koma hingað margir hv. þingmenn stjórnarliðsins og berja sér á brjóst og telja að þeir hafi náð gríðarlega miklum árangri. Ég ætla ekki að fara að deila um í tölur í því samhengi en þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að hann hafi náð miklum árangri í rekstri ríkisins, og hæstv. forsætisráðherra skrifar greinar í blöðin um hve vel hafi gengið, þá finnst mér oft gleymast að þakka íslensku þjóðinni. Stjórnvöld seildust einfaldlega í vasa skattgreiðenda, hvort heldur sem það voru einstaklingar eða fyrirtæki. Þau hækkuðu álögur á fólkið í landinu og fyrirtækin. Þannig er hægt að ná árangri í því að greiða niður skuldir, með því að fara í vasa skattgreiðenda og taka úr þeim fjármuni. Mér finnst það í sjálfu sér ekki rosalega mikið afrek.

Við skulum ekki gleyma því að á sama tíma hefur ríkisvaldið, ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn, verið að færa tekjur frá sveitarfélögunum í landinu til ríkissjóðs. Það á þá sérstaklega við í formi hækkunar á tryggingagjaldi. Svörin sem ríkisvaldið gefur eru þau að sveitarfélögin eigi að meðhöndla eins og önnur fyrirtæki í landinu, þ.e. þau eigi að taka þátt í að greiða niður atvinnuleysið. Þetta finnst mér mjög óábyrgt og hef gagnrýnt mjög oft því að sveitarfélögin í landinu eiga líka að sinna ákveðinni grunnþjónustu og nú eru þau mörg í miklum vanda. Það er vegna þess að tekjurnar duga sumum þeirra ekki til að mæta lögbundnum útgjöldum. Mér finnst mjög ósanngjarnt af ríkinu að hafa verið að færa tekjur frá sveitarfélögunum til ríkisins, mér finnst það ósanngjarnt, hef gagnrýnt það mjög, og þá sérstaklega í formi hækkunar á tryggingagjaldi.

Það sem hefur gerst líka, og gleymist oft í þessari umræðu, er að haustið 2009, þegar til stóð að leggja 16 milljarða kolefnisskatt á stóriðjuna, varð mikið upphlaup í kringum það. Hæstv. fjármálaráðherra kynnti þetta, hæstv. iðnaðarráðherra kom af fjöllum haustið 2009 og síðan náðist samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og þessara fyrirtækja um að greiða á árunum 2010, 2011 og 2012 1.200 millj. kr. fyrir fram í skatt sem á svo að dragast frá á árunum 2013, 2014 og 2015. Þarna erum við líka búin að taka 3,6 milljarða, bara með þessu samkomulagi af fyrir fram teknum skatttekjum.

Svo skulum við líka fara aðeins yfir úttekt á séreignarsparnaði, hann kemur til með að ná hæstu hæðum á þessu ári, þ.e. úttektin verður um 25 milljarðar og reiknað er með því í spá Hagstofunnar að hann verði 12–13 milljarðar á næsta ári. Ég set ákveðin spurningarmerki við þetta, það sem gerist er að fólk á erfitt með að ná endum saman og fer þess vegna inn í þennan séreignarsparnað sinn til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Ég hef áhyggjur af því að það sem drífi þjóðhagsspána hjá Hagstofunni sé aukin einkaneysla sem byggist þá á kauphækkununum sem voru á þessu ári, kjarasamningunum, úttektinni á séreignarsparnaðinum og hugsanlega vaxtabótunum auk þess sem margir eru með frystingu á lánum — þessir póstar bera einkaneysluna uppi.

Ég tel ástæðu til að setja ákveðið spurningarmerki við að hafa það þannig að það sem dragi fram hagvöxtinn sé einkaneysla. Auðvitað væri betra, og ég held að það deili enginn um það, ef hér væri fjárfesting eða ef menn væru að skapa aukin verðmæti, þ.e. að hér væri framleiðniaukning. Það væri miklu æskilegra, held ég, að hlutirnir væru með þeim hætti.

Við getum tekist á um þetta endalaust og ég ætla svo sem ekki að fara mjög djúpt í þá umræðu hér. Við erum búin að leggja fram efnahagstillögur okkar, við viljum snúa af þeirri braut sem við erum á og fara í atvinnuuppbyggingu til að breikka skattstofnana. En ég hef tekið eftir því að þegar við ræðum þetta í þingsal eru menn dálítið mikið langt til hægri og langt til vinstri í málflutningi sínum. Ég hef stundum verið hugsi þegar stjórnarmeirihlutinn og hæstv. fjármálaráðherra hafa talað um verkefnið Allir vinna, verkefni sem skilað hefur góðum árangri. Í því eru skattalegir hvatar og það skilar ávinningi. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að þetta er skynsamleg leið. En það sem ég hef aldrei skilið í þessari umræðu er af hverju menn telja ekki að það geti virkað á öðrum stöðum í hagkerfinu, í öðrum greinum. Við erum með endurgreiðslu til nýsköpunarfyrirtækja, það hefur gengið vel. Við erum líka með endurgreiðslu til kvikmyndagerðar, menn telja að það hafi gengið vel, það sé að skila sér, þ.e. að búa til hvata í skattkerfunum til að búa til störf. Það sé betra að gera það þannig en vera með hækkun á tryggingagjaldinu til að borga út atvinnuleysisbæturnar. Ég tel að þegar öllu sé á botninn hvolft sé betra að gera þetta með þessum hætti.

Menn hafa rætt mikið um fjárfestingar og ekki er deilt um það að fjárfestingar hafa aldrei verið lægri í sögu lýðveldisins en á árinu 2010. Þegar menn tala um að fjárfestingar séu að aukast þá er það gott mál, vonandi sem mest, en þá verðum við líka að ræða það af sanngirni að skilaboðin frá stjórnvöldum og forustumönnum ríkisstjórnarinnar hafa kannski ekki beint verið að ýta undir fjárfestingar. Við skulum til dæmis nefna sjávarútveginn. Menn geta sagt: Sjávarútvegurinn er að fjárfesta en ég tel að sjávarútvegurinn mundi fjárfesta miklu meira ef umhverfið væri annað, ég held að við þurfum ekki að deila mikið um það.

Auðvitað hentar það flestum, kannski ekki öllum en flestum og sérstaklega mundi það henta íslensku þjóðinni, að ákveðin ró náist í kringum sjávarútveginn. Í kringum hann hefur verið pólitísk upplausn í áratugi. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason benti á hér áðan, í mjög langan tíma hefur verið óþolandi óvissa í kringum sjávarútveginn en hún hefur aldrei verið eins og núna, aldrei jafnslæm og núna. Ef við hefðum nýtt kraftana á annan hátt undanfarin ár, til að mynda ekki verið í þessum hörðu deilum um sjávarútveginn — og ég hef reyndar ekki skilið þær deilur vegna þess að þegar sáttanefndin skilaði af sér á sínum tíma fannst mér vera kominn mjög góður jarðvegur til að leiða málið í jörð. Því miður var sú leið ekki farin, hún var skrumskæld. Menn hefðu getað náð árangri og komið atvinnugreininni í þann farveg sem ég tel mjög mikilvægt fyrir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, þ.e. að menn viti hvar greinin standi. Það var ekki gert.

Ef nýtt frumvarp klárast í vor er eitt kvótaár eftir af líftíma þessa kjörtímabils. Þá heldur þessi sama óvissa áfram. Ef hörð átök verða um breytingar varir óvissan og þá kemst ný ríkisstjórn til valda sem mun vilja gera breytingar eina ferðina enn. Það er því mikilvægt fyrir alla stjórnmálaflokka að slíðra sverðin eins og hægt er til að koma á ró. Ég hef margoft bent á það úr þessum stól, og reyndar hafa margir tekið undir það með mér, en samt hefur það ekki verið gert, að við hefðum átt að nýta tímann til að auka við aflaheimildir, til að mynda í þorski. Ég tel að við hefðum átt að gera það til að styrkja stöðu þjóðarbúsins og þá værum við búin að skapa tugmilljónaverðmæti inn í þjóðarbúið. Nei, við höfum haldið undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar í óvissu og deilt um það en ekki tekið efnislega umræðu um hvað væri skynsamlegt að gera í þeim málum. Það er með ólíkindum hve mörgum tækifærum við höfum glutrað niður í því.

Ég ætla að fara yfir einstök atriði og það sem snýr kannski að breytingartillögunum. Auðvitað ber að fagna því að meiri hluti hv. fjárlaganefndar skuli vera búinn að leggja fram breytingartillögu sem dregur úr þeirri hagræðingarkröfu sem kom fram í frumvarpinu fyrir árið 2012, sem var lagt fram í byrjun október, fyrir tveimur mánuðum. Því ber að sjálfsögðu að fagna. En við þurfum að læra af þessu. Það er óþolandi það sem gerðist fyrir fjárlagaárið 2011, fyrir einu ári, þegar menn lögðu til 35–40% niðurskurð á heilbrigðisstofnanirnar, sendu þau skilaboð út í samfélagið, það er ekki hægt að bjóða upp á það. Það kom í ljós hvernig samfélögin tóku því, þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á þau. Að mínu mati hefði verið betra að vera komin lengra og þurfa ekki að draga í land, það hefði verið betra ef þetta hefði verið gert strax í frumvarpi 2012. Þá hefði það legið fyrir hvernig hægt væri að ganga í þessi verk í stað þess að slengja niðurskurðinum fram, fresta honum og draga hluta af honum til baka. Þó að ég fagni því að minna sé skorið niður en til stóð þá segir þetta að við verðum að vanda okkur betur því að það er slæmt fyrir samfélögin að fólk upplifi slíkt öryggisleysi, það er staðreynd, þetta eru hlutir sem við verðum að breyta.

Það er líka mjög mikilvægt — og einn hv. stjórnarþingmaður tók undir það í dag þegar ég fór í andsvör við hana — að við gerum okkur grein fyrir því að þegar farið er í niðurskurð í heilbrigðiskerfinu þá hljótist ekki af því tilfærsla innan kerfisins, þ.e. að við séum að færa kostnaðinn til. Til er skýrsla um Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, gerð af tveimur íbúum á því svæði, þar sem sýnt var fram á það með óyggjandi hætti — ráðuneytið viðurkenndi ekki alla hluti þar en flesta held ég að ég geti fullyrt — að við værum bara að færa útgjöldin til. Þess vegna þurfum við að vanda þetta betur.

Virðulegi forseti. Ég bind miklar vonir við að sú undirnefnd sem starfar í hv. fjárlaganefnd fari að vinna að þeim breytingum sem búið er að ræða. Ég las lokaútgáfu frumvarpsins sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram og fagna því að sá texti er skrifaður algerlega í þeim anda sem rætt hefur verið í hv. fjárlaganefnd og kemur fram í þeirri skýrslu sem við skiluðum til þingsins, hún hefur því miður ekki verið rædd enn þá en skilaboðin liggja fyrir og þingskjalið er til.

Ég var mjög ánægður þegar ég las texta hæstv. fjármálaráðherra um lokafjárlögin. Ekki er deilt um hvernig við viljum breyta vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Það verður væntanlega í fyrsta sinn á næsta ári að lögð verða fram svokölluð rammafjárlög og það tel ég mjög mikilvægt. Við verðum að ná þessum aga.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason benti réttilega á það áðan að á ákveðnu tímabili í tíð fyrri ríkisstjórna hefðu fjárlögin á þremur árum farið 74 milljarða fram úr, þetta agaleysi í ríkisfjármálum er ekki að byrja neitt núna. En það er svo mikilvægt að við náum tökum á því. Ef við náum aga í fjárlögin munum við geta sparað fullt af peningum. En þó er aðalatriðið það að allir sitji við sama borð, það er réttlæti fólgið í því að þær stofnanir sem ekki hafa aðgang að sértekjum eða mörkuðum tekjum eins og aðrar stofnanir hafa sitji við sama borðið. Ákvörðun sem tekin er við samþykkt fjárlaga og fjáraukalaga markar þá útgjaldarammann til viðkomandi stofnunar.

Ég vil nota þessar síðustu sekúndur mínar til að þakka fyrir þann góða anda sem er í fjárlaganefnd, get tekið undir það sem margir hv. þingmenn í fjárlaganefnd hafa talað um. Menn hafa fjallað um þessi mál á faglegum nótum en ekki pólitískum, við getum tekist á um þær í þingsalnum. Ég þakka fyrir það samstarf sem verið hefur í fjárlaganefnd, ég tel það hafa verið til fyrirmyndar.